Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra treystir sér ekki til þess að halda því fram að hækkun grunnatvinnuleysisbóta hafi letjandi áhrif á atvinnuleytendur. Þetta kom fram í svari hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði að hann og Katrín deildu örugglega þeirri sýn að veirufaraldurinn væri engum hér að kenna. „Formaður Samfylkingarinnar og formaður Vinstri grænna hljóta að vera sammála um það að eitt af brýnustu verkefnum okkar nú er að koma í veg fyrir neyð fólks og að ójöfnuður aukist í kreppunni. Það blasir hins vegar því miður við að tugir þúsunda manna munu missa vinnuna og heimili verða fyrir gríðarlegu tekjufalli, ráðstöfunartekjur munu jafnvel helmingast. Það þýðir að fleiri einstaklingar geta ekki borgað af lánum, ekki borgað leigu, ekki sent börnin sín í tómstundir og þurfa jafnvel að neita sér um að sækja nauðsynlega læknisþjónustu.“
Hann telur það vissulega vera gott að til standi að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta um þrjá mánuði „en það stendur ekki til að hreyfa við grunnatvinnuleysisbótunum þrátt fyrir að þúsundir séu nú þegar á þeim“.
Þá vísaði Logi í orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem „hefur haldið því fram að slík hækkun hafi letjandi áhrif á atvinnuleitendur“. Hann spurði því forsætisráðherrann hvort hún væri sammála þeirri fullyrðingu.
Forgangsraða aðgerðum
„Svo að ég svari síðustu spurningunni beint þá myndi ég ekki treysta mér til að halda því fram. Hins vegar vil ég minna á það hér að þessi ríkisstjórn hefur stigið mjög stór skref þegar kemur að málefnum atvinnuleysistrygginga. Ég vil rifja það upp að árið 2018 voru grunnatvinnuleysisbætur 227.000 krónur,“ sagði Katrín.
Þetta hefði verið staðan þá eftir tíð tveggja hægri stjórna í landinu. Atvinnuleysisbætur hefðu ekki hækkað umfram vísitöluhækkun frá því í hruninu. Þá hefði það verið þessi ríkisstjórn sem ákvað að hækka þær og hækka sömuleiðis þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta og hámarksgreiðslur úr Ábyrgðasjóði launa. Ef þetta hefði ekki verið gert væru atvinnuleysisbætur í dag um það bil 238.000 krónur, þ.e. þær hefðu hækkað samkvæmt vísitölu neysluverðs.
„Þetta var sú staða sem ríkisstjórnin kom að. Við töldum fyrirsjáanlegt að meira álag yrði á atvinnuleysistryggingakerfið og þess vegna réðumst við í þá aðgerð að hækka grunnatvinnuleysisbætur. Hins vegar er það svo að við höfum forgangsraðað aðgerðum. Þetta var í forgangi þá, þ.e. að hækka grunnatvinnuleysisbætur og greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa, og ég er viss um að það hefur skipt verulegu máli. Það nýjasta sem við höfum kynnt í þessu er hins vegar að lengja tímabil tekjutengingar og það gerum við vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi, þar sem margir hafa verið að missa vinnuna vegna heimsfaraldurs. Við erum að reyna að brúa það bil sem fólk stendur frammi fyrir sem verður fyrir atvinnumissi,“ sagði Katrín.
Mikilvægasta verkefnið fyrir Ísland væri hins vegar að skapa hér fleiri störf og verja þau störf sem fyrir eru. „Þess vegna er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráðast ekki í niðurskurð hjá hinu opinbera, að verja kerfin okkar, að vera ekki að ráðast í niðurskurð á þessum tímum heldur einmitt auka opinbera fjárfestingu þannig að við getum skapað fleiri störf.“
Ekki töfruð fram störf á næstu vikum
Logi þakkaði afdráttarlaust svar við spurningu hans. „En hér erum við ekki í sagnfræði og deilum ekki um að það hafa verið stigið góð skref og þau ber að þakka, þá breytir það því ekki að hér verða ekki töfruð fram störf á næstu vikum – jafnvel þótt við gætum vissulega gert meira heldur en ríkisstjórnin hefur ætlað sér. Og þess vegna verður maður að spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að verja það fólk sem nú þarf að lifa á 240.000 þúsund krónum eftir skatt en hefur haft málefnalegar ástæður til þess að gera alls konar skuldbindingar miðað við miklu hærri laun?“
Hann spurði hvort til greina kæmi – þrátt fyrir allt – að hækka grunnatvinnuleysisbætur.
Útilokar engar aðgerðir
Katrín sagði að henni fyndist áhugavert að þingmenn stjórnarandstöðunnar væru búnir að ákveða að allt sem gerst hefði í gær væri orðin sagnfræði. „Mér finnst það skemmtilegur samhljómur hér með þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Ég er ekki viss um að sagnfræðingar myndu kalla það sagnfræði sem verið var að kynna í fyrradag – en gott og vel, þetta er kannski til marks um að stjórnarandstaðan hafi fundið einhvern samhljóm.“ Hún óskaði stjórnarandstöðunni til hamingju með það.
„Ég vil taka það fram hér að engar aðgerðir eru útilokaðar í þeim aðstæðum sem við erum í, það er ekki þannig. Þetta fannst okkur vera mikilvægasta skrefið að stíga núna, það er að segja að lengja þetta tekjutengda tímabil til þess að koma til móts við þá sem hafa verið að missa vinnuna í faraldrinum. Og ég tel að það sé mjög gott skref,“ sagði hún.
Forsætisráðherra vildi einnig rifja það upp að ríkisstjórnin hefði tryggt stuðning til tekjulágra fjölskyldna með því að styðja við tómstundir barna. „Þessi ríkisstjórn er líka núna að kynna menntaúrræði fyrir atvinnuleitendur upp á tvo milljarða króna sem ég held að við háttvirtur þingmaður séum sammála um að sé eitt það mikilvægasta sem við getum gert í þessum aðstæðum sem núna blasa við. Þannig að ég held að núna þegar við ræðum þessi mál að við verðum að horfa á þetta samhengi hlutanna.“