Hækkun grunnatvinnuleysisbóta er nauðsynleg til þess að ekki skapist neyð á þúsundum heimila vegna atvinnuleysis að mati Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Þetta sagði Oddný í Vikulokunum á Rás 1 fyrr í dag.
Hún sagði að margar af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefði gripið til til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins væru góðar og gildar en hún hefði viljað sjá grunnatvinnuleysisbætur hækka í nýju frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um vinnumarkaðsúrræði. „Það bara er skylda stjórnmálamanna við þessar aðstæður að koma í veg fyrir að hér skapist neyð og fátækt á þúsundum heimila,“ sagði Oddný meðal annars í þættinum.
„Nú eru tólf þúsund manns á Íslandi sem þurfa að framfleyta sér á grunnatvinnuleysisbótum, sem eru rétt um 290 þúsund krónur fyrir skatt. Það sér hver maður að þetta gengur ekki. Þarna þarf að bæta í og við munum taka okkur tíma í þinginu til að ræða þau mál, fara yfir stöðu þess fólks og hvað eiginlega það á að þýða að halda þeim í neyð þegar lyft er undir með öðrum,“ sagði Oddný í Vikulokunum. Nú þegar væri búið að fleyta fyrirtækjum yfir erfiðan hjalla og það sama þyrfti að gera fyrir heimilin að mati hennar.
Atvinnuástandið „grafalvarlegt“ á Suðurnesjum
Oddný tók stöðu Suðurnesja sérstaklega fyrir í þættinum. „Hjartað í mér slær hratt þegar ég tala um þessi mál því á mínu heimasvæði er grafalvarlegt ástand. Þar er ein af hverjum fimm konum atvinnulaus og atvinnuleysi í heild í júli var 16,5 prósent á Suðurnesjum,“ sagði hún.
Í síðustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi kemur fram að í síðasta mánuði hafi samanlagt atvinnuleysi, það er almennt atvinnuleysi og atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls, lækkað milli mánaða alls staðar á landinu nema á Suðurnesjum en um mánaðamótin síðustu var samanlagt atvinnuleysi þar 16,5 prósent líkt og kom fram í máli Oddnýjar. Á milli júní og júlí hækkaði almennt atvinnuleysi á svæðinu úr 13,2 prósentum upp í 15,2 prósent, atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls lækkaði hins vegar úr 2,6 prósentum í 1,2 prósent. Í skýrslunni kemur einnig fram að í öllum mánuðum ársins hefur atvinnuleysi mælst mest á Suðurnesjum.
Þar hefur atvinnuleysi vaxið með hverjum mánuðinum í ár og nú síðast í gær sendi Isavia frá sér tilkynningu þess efnis að félagið hefði sagt upp 133 starfsmönnum. Í tilkynningunni kom fram að fjöldi ferðamanna hafi vaxið stöðugt í sumar en algjör viðsnúningur hefði orðið í kjölfar ákvörðunar um tvöfalda sóttkví. Forsendur fyrir veturinn væru því brostnar og því útlit fyrir að verkefni verði af skornum skammti fyrir hóp starfsmanna félagsins á næstu mánuðum.