Niðurstöður rannsóknar vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsmanna þeirra sem birtist í vísindaritinu The New England Journal of Medicine í dag, benda til þess að ekki dragi úr mótefni sem myndast í blóði eftir kórónuveirusmit á fyrstu fjórum mánuðum eftir sýkingu.
„Á þessum átta mánuðum sem liðnir eru frá því að þessi veira flutti sig yfir í mannheima hefur fullt af fólki verið að gera alls konar litlar rannsóknir á mótefnum sem og öðru,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samtali við Kjarnann um nýju rannsóknina. „Tvær af þessum rannsóknum sögðu að mótefni byrjuðu að minnka mjög fljótlega. Það gerði menn áhyggjufulla um að margir myndu sýkjast aftur. En okkar rannsókn sýnir óyggjandi fram á að mótefnin byrja ekki að minnka, að minnsta kosti ekki innan fjögurra mánaða. Það minnkar áhyggjurnar af því að menn komi til með að endursýkjast. Þetta er mjög mikilvægt að vita þegar menn velta fyrir sér bólusetningum og fleiri atriðum.“
Alls var skimað fyrir mótefnum í blóði 30.576 Íslendinga. Prófuð voru 2.102 sýni úr 1.237 Íslendingum sem höfðu sýkst af SARS-CoV-2, veirunni sem veldur COVID-19, sem tekin voru allt að fjórum mánuðum eftir greiningu. Þá voru mæld mótefni hjá 4.222 einstaklingum sem höfðu farið í sóttkví og öðrum sem ekki höfðu komist í tæri við veiruna svo vitað væri. 2,3 prósent þeirra sem höfðu farið í sóttkví voru með mótefni og 0,3 prósent fólks sem ekki var vitað að hefði smitast eða umgengist smitaða einstaklinga. Mun fleiri greindust með mótefni sem voru í sóttkví en þeir sem voru það ekki.
„Ef einhver lendir í sóttkví með sýktum einstaklingi í sinni fjölskyldu eru ofboðslega miklar líkur á því að menn sýkist,“ segir Kári. Um helmingslíkur eru á því að sýkjast við þær aðstæður. Þær eru mun minni ef fólk er í sóttkví vegna sýkts bekkjarfélaga, svo dæmi sé tekið. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að ef einstaklingur í fjölskyldu sýkist og aðrir í fjölskyldunni eru settir í sóttkví þá séu aðrir sem komu nálægt þessum fjölskyldumeðlimum líka settir í sóttkví.“
Kári bendir á annað sem skipti miklu máli og það er að eftir því sem fólk verður veikara þeim mun meira myndar það af mótefnum og eftir því sem það er eldra gerist slíkt hið sama. Þá hefur komið í ljós að konur mynda minna af mótefnum en karlar en þær eru ólíklegri en karlar til að veikjast mikið ef þær sýkjast.
Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar álykta út frá gögnum að 0,9 prósent Íslendinga hafi smitast af veirunni og 91,1 smitaðra hafi myndað mótefni, Þá hafi 44 prósent þeirra sem smituðust ekki fengið greiningu en dánartíðni sé 0,3 prósent. „Þetta þýðir að 99,1 prósent Íslendinga eru ennþá veikir fyrir henni, hafa enga mótstöðu gegn þessari veiru,“ segir Kári. „Það aftur þýðir að ef það kæmi ný, kröftug bylgja þá myndi samfélagið leggjast á hliðina.“
Miðað við þetta eru þær ráðstafanir sem innleiddar voru á landamærum landsins 18. ágúst, hin tvöfalda skimun allra ferðamanna, mjög skynsamlegar að mati Kára. „Þú verður annars vegar að velta fyrir þér hagsmunum ferðaþjónustunnar og hins vegar möguleikanum að geta haldið skólum opnum, geta stundað atvinnugreinar eins og sjávarútveg, stundað menningarlíf og fleira.“
Kári minnir á að það þurfi aðeins einn að komast sýktur inn í landið til að koma af stað nýrri bylgju. Það hafi reynsla síðustu vikna sýnt okkur.
En vitum við á þessari stundu hversu lengi mótefnið mun verja okkur, umfram þá fjóra mánuði sem nú hefur verið sýnt fram á?
Kári segir svo ekki vera og að ástæðan sé sú að stutt sé síðan að veiran smitaðist í menn. Mótefni vegna veirunnar sem olli SARS-faraldrinum árið 2003 entist í 2-3 ár. „Ég held að það sé engin ástæða til að hafa gífurlegar áhyggjur af endursmitun. Ef þú horfir til þess að rúmlega 25 milljónir manna hafa smitast af veirunni í heiminum í dag. Sá hópur hlýtur að ná yfir mjög stóran hundraðshluta af öllum fjölbreytileika mannsins; í hæð, þyngd, aldri, húðlit og svo framvegis. Og líka fjölbreytileika þegar kemur að ónæmiskerfinu. Það eru einhverjir einstaklingar í þessum stóra hópi sem gætu sýkst tvisvar en venjuleg manneskja gerir það ekki.“
Kári segir mjög eðlilegt að fólk sem sýktist hafi óttast að smitast og veikjast aftur. „Sérstaklega fólk sem orðið hefur lasið. Það er eðlilegt að það sé kvíðið, það er mjög eðlilegt að veikindin hafi fengið á það og svo eru að berast fréttir af dálítið langvinnum eftirköstum.“
En nú hefur eitt mikilvægt púsl fundist: Mótefnið minnkar ekki að minnsta kosti á fyrstu fjórum mánuðunum sem Kári vonar að dragi úr áhyggjum einhverra.
„Ég hef varið meirihluta ævinnar í að leita að svona púslum,“ segir Kári. Hann segist hæstánægður með rannsóknarvinnu sinna vísindamanna. Hún sé mjög vönduð og að því að hann best viti einstök á heimsvísu.