Nokkuð hallar á konur á framboðslista Miðflokksins til sveitarstjórnarkosninga í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurland. Einungis fimm konur eru á framboðslista flokksins af alls 22 frambjóðendum, en á hinum listunum sem boðnir verða fram í kosningum 19. september næstkomandi eru hlutföll karla og kvenna á framboðslistum jöfn eða því sem næst.
„Ég er að fara í kynskiptiaðgerð á morgun og næsti maður líka, svo við þurfum nú ekki að hafa áhyggjur af því,“ segir Þröstur Jónsson oddviti Miðflokksins í gamansömum tón við blaðamann Kjarnans, spurður út í þetta.
Í fullri alvöru viðurkennir hann þó að það hafi einfaldlega gengið illa að fá konur til þess að taka sæti á listanum, þrátt fyrir að allt hafi verið gert til þess fram á seinasta dag.
Möguleg skýring, segir Þröstur, gæti verið sú að sveitarstjórnarstörfin í nýju sveitarfélagi verða umfangsmeiri en í sveitarfélögunum sem hið nýja leysir af hólmi. Hlutastarf, en ekki bara hobbý. Fólk sem hafi hug á að taka sæti ofarlega og reyna að veljast í nýja bæjarstjórn sveitarfélagsins þurfi því að vera reiðubúið til að gera tilfæringar á sínum daglegu störfum og konur hafi síður reynst tilbúnar til þess, hjá Miðflokknum allavega, og bætir við að mestu skipti að hafa gott fólk á lista.
Fimm flokkar í framboði í frestuðum kosningum
Framboðsfrestur fyrir kosningarnar í nýja sveitarfélaginu, sem upprunalega áttu að fara fram 18. apríl en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, rann út 29. ágúst og verða alls fimm listar á kjörseðlinum.
Auk lista Miðflokksins eru listar frá ríkisstjórnarflokkunum þremur, Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum og til viðbótar býður Austurlistinn fram í fyrsta skipti, en það er óháð framboð félagshyggjufólks í nýja sveitarfélaginu, sem orðið hefur til með sameiningu Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Djúpavogshrepps og Borgarfjarðarhrepps.
Samkvæmt viðmælendum Kjarnans í nýju sveitarfélagi hefur ekki mikið borið á eiginlegri kosningabaráttu, auglýsingum eða málefnatali í samfélaginu undanfarnar vikur þrátt fyrir að einungis 18 dagar séu í kjördag. Samkomutakmarkanir hafa enda verið í gildi og ekki hefur verið mælst til þess að fólk safnist saman eða sé að hitta aðra að nauðsynjalausu, til dæmis á kosningaskrifstofum.
Flestum sem Kjarninn hefur rætt við ber líka saman um að helsta kosningamálið verði sameiningin sjálf og framkvæmd hennar, enda verður kjörtímabil fyrstu sveitarstjórnar nýja sveitarfélagsins, sem líklegt má telja að hljóti nafnið Múlaþing, einungis fram til vorsins 2022.
Flokkarnir hafa almennt lítið verið að koma stefnumálum sínum á framfæri við kjósendur með beinum hætti eða minna á sig, en einungis eina kosningaauglýsingu sem kalla má er að finna í nýjasta tölublaðinu af Dagskránni, vikulegum auglýsingapésa sem dreift er inn á heimili á Austurlandi.
Þar er Miðflokkurinn með auglýsingu undir slagorðinu „Sveitarfélagið allt“ en flokkurinn rétt eins og fleiri flokkar hafa ekki enn kynnt heildstæða stefnu sína. Vinstri græn eru þó undantekning í þessum efnum, en málefnaskrá flokksins í nýja sveitarfélaginu var hægt að finna á sérvef á vefsvæði Vinstri grænna.
Frambjóðendur flestra flokka hafa verið duglegir að rita greinar í blöð, bæði í héraðsfréttamiðlana Austurfrétt og Austurgluggann og einnig í landsdekkandi vefmiðla, en Kjarnanum heyrist að framboðin ætli sér að fara að koma stefnumálunum betur á framfæri á næstu dögum og vikum með kosningabæklingum og auglýsingum.
Allir kosningabærir íbúar í raun í framboði
Það verður ekki einungis kosið til sveitarstjórnar í nýja sveitarfélaginu 19. september, því einnig verður kosið til fjögurra heimastjórna og munu umdæmi hverrar heimastjórnar miðast við gömlu sveitarfélagamörk sveitarfélaganna fjögurra.
Hver sem hefur kosningarétt í nýja sveitarfélaginu er í raun í framboði til heimastjórnar í sínu umdæmi og er um beint persónukjör að ræða, sem eflaust verður fróðlegt í framkvæmd.
Á vef nýja sveitarfélagsins segir að æskilegt sé að þeir sem hafi hug á því að taka sæti í heimastjórn geri sjálfir grein fyrir því í sínu nærumhverfi, en þar kemur jafnframt fram að ekkert er því til fyrirstöðu að þeir sem sitja á framboðslistum til sveitarstjórnar geti um leið boðið sérstaklega fram krafta sína í heimastjórn og setið í báðum stjórnum á sama tíma.
Kjósendur munu þurfa að skrá bæði fullt nafn og heimilisfang frambjóðenda til heimastjórnar á kjörseðilinn – og það má bara kjósa einn einstakling.
Tveir einstaklingar verða kjörnir beinni kosningu í hverja heimastjórn og tveir til vara, alls átta manns í sveitarfélaginu öllu.
Þau munu starfa ásamt einum til viðbótar, en sá og varamaður hans verða valdir af sveitarstjórn. Markmið heimastjórna er að tryggja áhrif og aðkomu heimamanna á hverjum stað að ákvörðunum sem varða þeirra nærumhverfi.
Sveitarstjórn nýja sveitarfélagsins er ætlað að fela heimastjórnunum störf sem snúa að viðkomandi byggðahluta og heimastjórnin mun geta ályktað um málefni byggðarinnar og komið málum á dagskrá sveitarstjórnar, en helstu verkefni heimastjórna eiga að snúa að deiliskipulags- og umhverfismálum, menningarmálum, landbúnaðarmálum og umsögnum um staðbundin málefni og leyfisveitingar, samkvæmt vef nýja sveitarfélagsins.
Stærsta sveitarfélag landsins að flatarmáli
Nýtt sveitarfélag mun líklega fá nafnið Múlaþing, en það nafn varð hlutskarpast í ráðgefandi nafnakönnun á meðal íbúa fyrr á árinu. Nafnið Drekabyggð varð þar í öðru sæti þrátt fyrir að hafa ekki blessun Örnefnanefndar og Austurþing í því þriðja.
Að velja nýtt formlega nafn á sveitarfélagið er þó á meðal þess sem bíður nýrrar sveitarstjórnar og verður væntanlega með fyrstu verkum. Rúmlega 3.600 manns eru á kjörskrá í nýju sveitarfélagi, sem er það víðfemasta á landinu.
Fjarlægðir innan þess eru allnokkrar, en 155 kílómetra akstursfjarlægð er frá Djúpavogi til Borgarfjarðar eystra og tekur sá rúntur á þriðju klukkustund.