Lögmaður Samherja hefur lagt fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram á vefsíðu Samherja í dag.
Kæran til siðanefndar byggir á reglu í siðareglum Ríkisútvarpsins sem er svohljóðandi: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“
Frétta- og dagskrárgerðarmennirnir sem um ræðir eru þau Aðalsteinn Kjartansson, Freyr Gígja Gunnarsson, Helgi Seljan, Lára Ómarsdóttir, Rakel Þorbergsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Snærós Sindradóttir, Stígur Helgason, Sunna Valgerðardóttir, Þóra Arnórsdóttir og Tryggvi Aðalbjörnsson.
Fram kemur á vef Samherja að öll þau tilvik sem fjallað er um í kærunni varði starfsmenn Ríkisútvarpsins sem sinni umfjöllun um fréttir, fréttatengd efni og dagskrárgerð. Í færslum þeim, sem starfsmennirnir birtu á samfélagsmiðlum og fjallað er um í kærunni, hafi þeir tekið afstöðu í umræðu um málefni Samherja.
„Er þar einkum um að ræða mál vegna ásakana sem settar voru fram vegna starfseminnar í Namibíu og hið svokallaða Seðlabankamál en einnig ýmis önnur mál sem tengjast Samherja með beinum og óbeinum hætti. Má þar nefna eignarhald fyrirtækja í sjávarútvegi og eignarhald á hlutabréfum í Eimskip.
Ljóst má vera að með ummælum sínum hafa umræddir starfsmenn Ríkisútvarpsins gerst brotlegir við siðareglurnar. Þá virðist sem um sé að ræða samantekin ráð þar sem margar þeirra færslna, sem fjallað er um í kærunni, voru birtar á samfélagsmiðlum því sem næst samtímis. Gerir það brotin enn alvarlegri. Í kærunni er þess krafist að horft verði sérstaklega til þess að sumir fréttamannanna brjóta siðareglurnar ítrekað,“ segir á vef Samherja.
Hægt er að sjá kæruna hér.