Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur samþykkt ályktun þar sem því er hafnað með öllu að fresta kjarasamningsbundnum launahækkunum. Tveir leiðtoga stjórnarflokka hafa rætt slíkar hugmyndir á undanförnum dögum auk þess sem fulltrúar atvinnurekenda hafa viðrað þær.
Í ályktuninni segir að miðstjórnin árétti mikilvægi þess að stjórnvöld etji ekki aðilum vinnumarkaðar saman nú þegar endurskoðun kjarasamninga standi fyrir dyrum, en Lífskjarasamningarnir svokölluðu eru til endurskoðunar nú í septembermánuði. Í þeirri vinnu verður farið yfir hvort að forsendur þeirra haldi.
Miðstjórn ASÍ segir að kjaraskerðing ógni ekki einungis afkomuöryggi launafólks á krepputímum heldur hafi hún einnig skaðleg áhrif til frambúðar og muni bæði dýpka og lengja kreppuna. „Bætt kjör launafólks skila sér bæði í aukinni neyslu, sem er afar áríðandi í samdrætti, og auknu skattfé, enda er launafólk helstu skattgreiðendur landsins. Samtök atvinnulífsins virðast hvorki hafa skilning á þörfum atvinnulífsins né almennings og kjósa heldur að fylgja hugmyndafræðilegri línu sem getur, ef henni er fylgt, haft í för með sér langvinnan skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. Miðstjórn ASÍ mun berjast af fullum þunga fyrir kjörum launafólks og fyrir almannahagsmunum í þeirri kreppu sem nú stendur yfir.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að þótt það væri ekki líklegt til árangurs að segja aðilum vinnumarkaðarins fyrir verkum telji hann sjálfsagt að „vekja athygli á þeim almennu sannindum að kjarasamningar snúast um að skipta því sem er til skiptanna. Og að þegar allar forsendur breytast og minna er til skiptanna, þá geti menn tæplega setið við sinn keip og krafist þess að það sem um var samið skili sér. Því verður á endanum skilað, en spurningin er hvernig og hvenær.“