Beta Nordic Studios, sem er dótturfyrirtæki Beta Film, stærsta sjálfstæða kvikmyndafyrirtækis Evrópu, hefur keypt fjórðungshlut í íslenska fyrirtækinu Sagafilm. Verður Sagafilm þar með hluti af Beta Nordic Studios, rétt eins og sænska framleiðslufyrirtækið Dramacorp og finnska fyrirtækið Fisher King. Kaupverðið er trúnaðarmál.
„Þetta er bara frábært, það er í fyrsta lagi einhver sem hefur áhuga á þessu og í öðru lagi er tilbúinn að borga fyrir það og koma með beina fjárfestingu inn,“ segir Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm í samtali við Kjarnann. Hann segir að Sagafilm hafi verið í örum vexti undanfarin ár og að fjárfesting Beta-samsteypunnar sé staðfesting á því að áætlanir fyrirtækisins hafi verið að virka.
Beta Film er sem áður segir stærsta fyrirtækið í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu í Evrópu og hefur verið starfandi frá 1953. „Þetta er alveg risafyrirtæki, með skrifstofur út um alla Evrópu og Ameríku og Suður-Ameríku. Beta Nordic Studios er svo norræni vinkillinn þeirra,“ segir Hilmar.
„Þetta styrkir okkur í dreifingu, það er alveg ljóst, en okkur finnst líka mikilvægt að við munum halda áfram að vinna með sömu samstarfsaðilum í verkefnum og við höfum verið að gera. En þetta styrkir okkur í dreifingu og það efni sem er til hérna mun koma til með að verða boðið víðar en núna er. Það er hluti af þessu markmiði og að halda áfram að framleiða hágæða sjónvarps- og kvikmyndaefni,“ segir Hilmar.
Fyrst var greint frá kaupunum á vefnum Variety í dag, en þar var haft eftir Justus Riesenkampff, sem stýrir Norður- og Niðurlandadeildinni hjá Beta Film að það sé mikilvægt að hafa snertifleti við Skandinavíu fyrir þýskt fyrirtæki. „Við höfum komist að því að Norðurlöndin framleiðar sumar af vinsælustu dramaseríum heimsins á öðrum tungumálum en ensku, rétt á eftir spænskum þáttaröðum,“ segir Riesenkampff. Hann mun taka sæti í stjórn Sagafilm og það mun framkvæmdastjóri Beta Nordic Studios, Martin Håkansson, einnig gera.
Ekki er gert ráð fyrir að kaupin hafi í för með sér neinar breytingar á starfsemi Sagafilm, sem var stofnað árið 1978. Eigendur Sagafilm eru KPR ehf. og HilGun ehf. og nú Beta Nordic Studios. Félagið velti 2,3 milljörðum á árinu 2019 og skilaði hagnaði.Sagafilm framleiðir hvers kyns kvikmyndir og sjónvarpsefni, auk þess að sinna þjónustu við erlend verkefni og auglýsingar. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Sagafilm er félagið með fjögur stór verkefni á mismunandi stöðum í framleiðslu og þar af tvö í tökum um þessar mundir, en næsta frumsýning hjá Sagafilm er sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann með Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverki. Sýningar hefjast á RÚV þann 20. september og í kjölfarið víða um heim.