Facebook ætlar gera ákveðnar breytingar á þjónustu sinni í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum, í því skyni að draga úr upplýsingaóreiðu og reyna að koma böndum yfir tilraunir til þess að hafa letjandi áhrif á kosningaþátttöku. Mark Zuckerberg stofnandi Facebook greindi frá þessu, í færslu á Facebook.
Á meðal þess sem Facebook ætlar að gera er að hætta að taka á móti nýjum pólitískum auglýsingum í birtingu síðustu vikuna fyrir kosningar, frá 27. október og til kjördagsins 3. nóvember. Zuckerberg segir í færslu sinni um málið að tilgangurinn með þessu sé að tryggja að hægt verði að sannreyna það sem fram kemur í auglýsingunum fyrir kjördag, en ef auglýsingar yrðu birtar á Facebook með skemmri fyrirvara yrði það mögulega erfitt.
Einnig ætlar miðillinn að fylgjast vel með tilraunum til þess að letja kjósendur til þátttöku og vinna með yfirvöldum til þess að fjarlægja hverskyns misvísandi upplýsingar um kosningar sem settar verða fram. Þá verða settar hömlur á hversu mörgum einstaklingar geta áframsent einstaka hlekki í gegnum Messenger. Hvern hlekk verður bara hægt að senda til eins einstaklings í einu, í stað þess að hægt sé að deila hlekk með öllum vinum sínum.
Segir Zuckerberg að þetta hafi áður verið gert á forritinu WhatsApp á „viðkvæmum tímaskeiðum“ og þetta hafi reynst vel í mörgum löndum til þess að koma í veg fyrir að lygasögur og falsfréttir fari á flug.
Heimsfaraldurinn setur líka mark sitt á aðgerðir Facebook: „Við erum að setja upp reglur gegn því að ógnir tengdar COVID-19 verði notaðar til þess að letja fólk til kosningaþáttöku. Við munum fjarlægja færslur með fullyrðingum um að fólk muni fá COVID-19 ef það fer að kjósa. Við munum hengja skilaboð frá yfirvöldum um COVID-19 við færslur þar sem veiran er notuð til að letja fólk til þátttöku í kosningu og við munum ekki leyfa slík skilaboð í auglýsingum,“ skrifar Zuckerberg.
Miðill hans hefur þegar sett upp sérstakan kosningaupplýsingavef þar sem kjósendur geta leitað sér upplýsingar um hvernig eigi að skrá sig til að kjósa og hvernig eigi að bera sig að við það að póstleggja atkvæði sín, svo eitthvað sé nefnt.
Samstarf við Reuters og kosningayfirvöld um birtingu niðurstaðna
Ljóst er að í ljósi útbreiðslu COVID-19 í Bandaríkjunum munu mjög margir kjósendur ákveða að bréfleggja atkvæði sín. Viðbúið er að þetta leiði til tafa á því að niðurstöðurnar verði kynntar og við því búast margir sérfræðingar. Zuckerberg segir að fólk verði að vera undirbúið að niðurstöður kosninganna verði vafamál, þar til atkvæðatalningu lýkur, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið í skyn að mögulega muni hann ekki sætta sig við niðurstöðu kosninganna ef hann tapar, þar sem póstatkvæði auki hættu á að brögð séu í tafli.
Ítrekað hefur komið fram að það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé rétt hjá forsetanum, en Facebook ætlar að búa sig undir það að fullyrðingar um hver sigurvegari kosninganna sé muni ganga fram og til baka allt þar til lokatölur liggja fyrir.
Zuckerberg segir að Facebook muni miðla upplýsingum til notenda til þess að „búa fólk undir möguleikann á því að það gæti tekið nokkurn tíma að fá opinberar niðurstöður. Þessar upplýsingar munu hjálpa fólki að skilja að það er ekkert ólögmætt við það að niðurstöður verði ekki komnar á kosninganótt.“
Í þessu skyni ætlar Facebook í samstarf við fréttaveituna Reuters og kosningayfirvöld í Bandaríkunum um upplýsingumiðlun um niðurstöður kosninganna. Facebook ætlar að eiga frumkvæði að því að láta fólk vita þegar niðurstöðurnar liggja fyrir.
„Ef einhver frambjóðandi eða fylking reynir að lýsa yfir sigri áður en niðurstöðurnar liggja fyrir, munum við merkja færslur þeirra með upplýsingum um að opinberar lokaniðurstöður liggi ekki enn fyrir og vísa fólki á þær niðurstöður sem liggja fyrir,“ skrifar Zuckerberg.
The US elections are just two months away, and with Covid-19 affecting communities across the country, I'm concerned...
Posted by Mark Zuckerberg on Thursday, September 3, 2020