Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er á meðal þeirra sex einstaklinga sem eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi Samherja.
Hinir fimm sem kallaðir hafa verið inn til til yfirheyrslu og fengið réttarstöðu sakbornings við hana eru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, og Jóhannes Stefánsson. RÚV greindi frá.
Jóhannes var framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu um tíma en lék lykilhlutverk í því að uppljóstra um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um málið sem birtist í nóvember í fyrra. Hann staðfesti við Kjarnann í júlí að hann væri einn þeirra sem hefðu fengið réttarstöðu sakbornings í málinu.
Í málinu er grunur er að um mútugreiðslur hafi átt sér stað, meðal annars til erlendra opinberra starfsmanna. Auk þess er grunur um brot á ákvæði almennra hegningarlaga um peningaþvætti og brot á ákvæði sömu laga um auðgunarbrot.
Til rannsóknar víða um heim
Samherjamálið komst í hámæli eftir að þáttur Kveiks sem opinberaði starfsemi Samherja í Namibíu fór í loftið í nóvember á síðasta ári en umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks. Margra mánaða rannsóknarvinna þeirra sýndi fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar í tengslum við veiðar hennar í Namibíu.
Í þætti Kveiks gekkst Jóhannes við því að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í Namibíu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja.
Hér á landi eru bæði héraðssaksóknari og embætti skattrannsóknarstjóra með mál tengd starfsemi Samherja í Namibíu til rannsóknar. Málið hefur einnig til rannsóknar í Noregi.
Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Esau, hafa ásamt fjórum öðrum setið í gæsluvarðhaldi frá því á síðasta ári á meðan namibísk yfirvöld rannsaka mál þeirra. Þeir eru grunaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja í skiptum fyrir kvóta.
Í bréfi sem Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja sem var ráðinn til félagsins eftir að málið kom upp, birti á sjávarútvegsfréttavefnum Undercurrent News 24. ágúst síðastliðinn sagði meðal annars að enginn vafi væri að „Samherja hefur mistekist að verja dótturfélög sín gegn brotum einstaklinga. Okkur þykir það mjög leitt.“