Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að framundan sé erfiður pólitískur vetur. „Ég hugsa að það muni reyna mjög mikið á hugmyndafræðilegar stoðir flokkanna. Á kosningavetri fara flokkar meira í kjarnann sinn og reyna að höfða til kjósenda. Þetta verður auðvitað líka mjög sérstakur kosningavetur þar sem ekki verður kosið fyrr en í september á næsta ári. Hann verður mjög langur og skrítinn.“
Þetta kom fram í ítarlegu viðtali Kjarnans við Drífu í síðustu viku.
Stjórnmál eru alltumlykjandi í samfélaginu og telur Drífa að taka verði pólitískar ákvarðanir í mjög góðu samráði við verkalýðshreyfinguna – og launafólk í landinu. Ekki sé nóg að hlusta á atvinnurekendur. „Ég hef töluverðar áhyggjur af því að það skorti einhvers konar jarðtengingu við vinnandi fólk og almenning. Þá tengingu er hægt að ná með því að tala til dæmis við okkur og önnur samtök.“
Nokkuð hefur borið á þeim hugmyndum að annars konar samfélag muni rísa með öðrum gildum eftir COVID-19 faraldurinn. En telur Drífa að betra og sterkara samfélag geti orðið að veruleika eftir þetta ástand?
„Já, ég hef trú á því að það geti gerst. Vegna þess að stórar hugmyndir geta líka komið upp úr erfiðu ástandi og það er ekki þannig að stórstígar framkvæmdir í réttindamálum almennings hafi endilega verið í góðæri – það hefur ekki síður verið í kreppu. En þá þarf pólitíkin náttúrulega að gera sér grein fyrir því, og hún er ekki alveg þar. Ég held að pólitíska hugmyndafræðin og átökin á milli þessara hugmyndafræða muni að einhverju leyti draga úr möguleikum til þess að gera eitthvað stórt,“ sagði hún.
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.