Fjöldi kaupsamninga á atvinnuhúsnæði hefur dregist saman um rúman fjórðung á fyrri helmingi ársins, auk þess sem verð þeirra hefur lækkað á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt fasteignafélögum er eftirspurnin þó ennþá fín og er samdrátturinn aðeins bundinn þeim fyrirtækjum sem hafa þurft að draga úr starfsemi sinni vegna sóttvarnaraðgerða.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár um þinglýsta kaupsamninga atvinnuhúsnæðis voru þeir að meðaltali 69 á mánuði á fyrri helmingi ársins, þar af 33 á höfuðborgarsvæðinu og 36 utan þess. Ef miðað er við sama tímabil í fyrra hefur þeim fækkað um 27%, en fækkunin var svipuð bæði innan og utan höfuðborgarsvæðisins.
Meiri samdráttur en á íbúðamarkaði
Samdrátturinn á markaði atvinnuhúsnæðis er töluvert meiri en á íbúðamarkaði, þar sem þinglýstum kaupsamningum íbúða hefur aðeins fækkað um 14% á höfuðborgarsvæðinu. Utan höfuðborgarsvæðisins er munurinn ennþá meiri, þar sem fjöldi keyptra íbúða jókst á sama tímabili um 5%.
Hálfs árs meðaltöl kaupsamninga atvinnuhúsnæðis má sjá á mynd hér að neðan. Samkvæmt henni hefur fjöldi kaupsamninga á atvinnuhúsnæði minnkað nokkuð stöðugt á höfuðborgarsvæðinuá síðustu þremur árum. Ekki er að greina mikla breytingu á síðustu sex mánuðum á þeirri þróun. Utan höfuðborgarsvæðisins hefur þróunin einnig verið svipuð.
Leigumarkaðurinn góður en tegundaskiptur
Samkvæmt fasteignafélögum virðist leigumarkaðurinn á atvinnuhúsnæði þó hafa gengið ágætlega á síðustu mánuðum. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar telur sumarið hafa verið ágætt, en þó mjög tegundaskipt. „Sú starfsemi sem er tengd ferðamannageiranum eða verður fyrir verulegum áhrifum vegna settra takmarkanna gengur ekki vel, en annars staðar virðist vera nokkuð góður gangur í þjóðfélaginu almennt.” sagði Garðar í samtali við Kjarnann.
Páll V. Bjarnason, framkvæmdastjóri atvinnuhúsnæðis og almenns húsnæðis hjá Reginn tekur í sama streng: „Eftirspurn eftir húsnæði er fín, við finnum sérstaklega fyrir sterkri eftirspurn eftir vönduðum skrifstofurýmum. Töluvert hefur verið leigt út af húsnæði hjá okkur í sumar og er útleiga á pari við 2019. Vandinn virðist vera fyrst og fremst hjá aðilum sem byggja afkomu sína á erlendum ferðamönnum.“