Hið opinbera á að vera tilbúið að bjarga þjóðarflugfélögum sínum og flugvöllum ef hætta er á gjaldþroti, en samstarf ríkisstjórnarinnar við þessa tvo aðila er lykilatriði í því að tryggja áreiðanlegar samgöngur til lengri tíma. Þetta er mat Simon Theeuwes, fyrrum ráðgjafa fyrir Schiphol-flugvöll í Amsterdam.
Theeuwes hélt erindi á málþingi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrr í dag um flugsamgöngur sem grunninnviði í ljósi COVID-19. Í erindi sínu fór hann yfir núverandi stöðu flugmála, auk greiningar sem gerð var á efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins á Schiphol-flugvöllinn í Amsterdam.
Samkvæmt Theeuwes er Schiphol sambærilegur Keflavíkurflugvelli að því leyti að báðir flugvellirnir eru tengimiðstöðvar; Schiphol fyrir flug til og frá Evrópu annars vegar, og Keflavíkurflugvöllur fyrir flug yfir Atlantshafið hins vegar.
Hann sagði slíka tengiflugvelli vera sérstaklega viðkvæma fyrir núverandi ástandi, þar sem lengur tæki að koma flugferðum milli heimsálfa í fyrra horf heldur en einfaldra millilanda- eða innanlandsflugferða. Mikilvægt væri að Ísland yrði í hóp þeirra landa sem öruggt er að ferðast til, en landið gæti þannig orðið að öruggum tengilið fyrir flugferðum milli Evrópu og Bandaríkjanna, mögulega þannig að farþegar sem eru á leið yfir Atlantshafið verði skimaðir á Íslandi í leiðinni.
Gullni þríhyrningurinn
Enn fremur taldi Theeuwes hlutverk ríkisins að verja alþjóðaflugvelli landsins auk þjóðarflugfélaga þeirra (e. National flight carriers) falli og mögulega eiga hlut í þeim. Því til stuðnings hann að hollenska ríkisstjórnin eigi 70% í eignarhaldsfélagi Schiphol flugvallar, auk þess sem það á 14% hlut í AirFrance-KLM samstæðunni og önnur 5% í hollenska flugfélaginu KLM. Þetta samstarf milli ríkisstjórnarinnar, flugvallarins og þjóðarflugfélagsins nefnir hann „gullna þríhyrninginn.“
Með slíku samstarfi taldi Theeuwes að fyrirsjáanleiki myndi skapast með rekstur flugfélaganna og flugvallanna, sem væru innviðir landsins. Þannig gæti hið opinbera einnig veitt flugfélögunum aðhald og séð til þess að þau uppfylli helstu skilyrði hvað varðar heilsu, öryggi og sjálfbærni. Einnig bætti hann við að slíkt samstarf væri ekki einsdæmi í Hollandi, finna mætti aðrar útgáfur þess annars staðar í Evrópu, líkt og í Þýskalandi og Frakklandi.