Þrátt fyrir mikinn samdrátt í veltu veitingastaða á Íslandi í vor og byrjun sumars var hann tæplega helmingi minni en í Evrópusambandinu. Samdráttur í veltu gistireksturs, flugsamgangna og bókunarfyrirtækja var samt á svipuðu róli og í öðrum aðildarríkjum sambandsins.
Þetta kemur fram í nýbirtum veltutölum frá hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, þar sem samdrátturinn í einkennandi greinum ferðaþjónustu var mældur á fyrstu mánuðum heimsfaraldursins í vor.
Í tilkynningunni segir að veltan í atvinnugreininni hafi dregist saman um 75 prósent í júní miðað við í febrúar. Sambærilegar tölur frá Hagstofu Íslands sýna þó að samdrátturinn hafi þó verið töluvert minni hér á landi, en veltan í einkennandi greinum ferðaþjónustu dróst saman um 49 prósent á tímabilinu maí-júní, ef miðað er við janúar og febrúar.
Ef undirliðir ferðaþjónustunnar eru skoðaðir hefur þó veltan í flestum undirgreinum hennar hreyfst á sama hátt hérlendis og í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Í aðildarríkjum sambandsins hefur velta í flutningum með flugi í maí og júní dregist saman um 62 prósent ef miðað er við sama tímabil í fyrra, en samdrátturinn nam 65 prósentum hér á landi. Rekstur gististaða dróst sömuleiðis um 80% á sama tímabili hérlendis, en 75 prósent í ESB.
Veitingasala og veitingaþjónusta sker sig þó töluvert úr, en þar er samdrátturinn mun minni hérlendis heldur en í flestum ríkjum Evrópusambandsins. Í byrjun faraldursins í mars og apríl dróst veitingasala hér á landi um 46 prósent, en samdrátturinn nam þá 61 prósenti í Evrópusambandinu.
Í maí og júní hafði samdráttur í veltu veitingastaða miðað við árið á undan minnkað niður í 28 prósent hérlendis, en sambærilegur samdráttur í ESB var tæplega tvöfaldur, eða um 50 prósent.
Breytinguna í veltu má sjá á mynd hér að ofan, þar sem 12 mánaða breyting í veltu veitingastaða á Íslandi, í Evrópusambandinu og í Svíþjóð er borin saman. Athygli vekur að samdrátturinn í maí og júní var minni á Íslandi heldur en í Svíþjóð, þrátt fyrir að landið hafi verið þekkt fyrir rúmar takmarkanir vegna sóttvarnaraðgerða.