Erla Björg Gunnarsdóttir er nýr fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar en hún hefur unnið á fréttastofunni frá 2013 og var starfandi fréttastjóri á tímabili. Þetta kemur fram í frétt Vísis í dag.
Erla tekur við af Hrund Þórsdóttur en hún greindi frá því í stöðuuppfærslu í gærkvöldi að hún hefði lokið störfum sem fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar.
Samkvæmt Vísi mun Erla vinna við hlið Kolbeins Tuma Daðasonar fréttastjóra Vísis en alls starfa rúmlega 50 manns á fréttastofunni.
Þórir Guðmundsson ritstjóri Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar kynnti í morgun breytingar sem fela í sér aukna áherslu á miðlun frétta á Vísi samfara áherslu á kvöldfréttir Stöðvar 2 á virkum dögum en dregið verður úr lengd kvöldfréttatímans um helgar, að því er fram kemur á Vísi.
„Við erum á fullri ferð að aðlagast þeirri alþjóðlegu þróun að fólk vill vita hvað er að gerast um leið og það gerist,“ segir Þórir í samtali við Vísi.