Samfylkingin bætir við sig tæplega tveimur prósentustigum samkvæmt nýjustu könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka, og mælist með 14,9 prósent fylgi. Viðreisn bætir líka við sig og mælist nú með tíu prósent stuðning. Píratar dala hins vegar lítillega og nú segjast 14,3 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa þá ef kosið væri í dag.
Allir þrír flokkarnir, sem mynda meirihluta saman í næst stærsta stjórnvaldi landsins Reykjavíkurborg ásamt Vinstri grænum, eru að mælast með stuðning yfir kjörfylgi. Samanlagt fengu þeir 28 prósent atkvæða í kosningunum 2017 en mælast nú með 39,2 prósent stuðning saman. Samtals hefur fylgi Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata aukist um 40 prósent frá því að síðast var kosið til þings á Íslandi. Þeir eru einu flokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi sem hafa bætt fylgi sitt á kjörtímabilinu, miðað við niðurstöðu MMR.
Allir stjórnarflokkarnir undir kjörfylgi
Sjálfstæðisflokkurinn er áfram sem áður stærsti flokkur landsins og mælist með 24 prósent fylgi. Það er nákvæmlega sama fylgi og hann mældist með í lok júlí, þegar MMR birti síðast niðurstöðu úr fylgiskönnun. Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, tapa fylgi milli kannanna og mælast með 9,6 prósent stuðning. Framsóknarflokkurinn stendur nánast í stað og nýtur stuðnings 8,9 prósent landsmanna.
Stuðningur við ríkisstjórnina hækkaði þó milli kannana og mælist nú 50,1 prósent.
Miðflokkurinn í átta prósentum
Miðflokkurinn hefur verið að dala í könnunum það sem af er ári og mælist nú með átta prósent fylgi. Það er töluvert minna en þau 10,9 prósent sem hann fékk í kosningunum 2017.
Flokkur fólksins mælist líka undir kjörfylgi, en 4,8 prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag.
Sósíalistaflokkur Íslands, sem mældist með 5,1 prósent fylgi í lok júli, lækkar umtalsvert milli kannana og nú segjast 3,4 prósent landsmanna ætla að kjósa flokkinn.
Alls segjast 2,2 prósent ætla að kjósa eitthvað annað en ofangreinda níu flokka.
Næstu kosningar fara fram eftir rúmt ár, þann 25. september 2021.
Könnun MMR var framkvæmd 26. ágúst - 2. september 2020 og var heildarfjöldi svarenda 929 einstaklingar, 18 ára og eldri.