Ýmis merki eru um aukinn þrýsting á húsnæðismarkaði. Kaupsamningum hefur fjölgað og eru vísbendingar um að þeim muni fjölga enn meira, á sama tíma og sölutími íbúða styttist. Samhliða því hækkar verð íbúða sem ekki eru nýbyggingar töluvert, en minni umsvif á byggingamarkaði bendir til þess að minna verði af nýbyggingum í framtíðinni.
Þetta kemur allt fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunarinnar (HMS), en samkvæmt skammtímavísum stofnunarinnar er enn mikið líf á fasteignamarkaði.
Lánin orðin ódýrari
Í skýrslunni segir að mikla fjölgun megi sjá á lánamarkaðnum, en frá því í apríl á þessu ari hafa hver metin verið slegin á fætur öðrum í nýjum hreinum útlánum til einstaklinga. Aldrei hafa fleiri slík lán verið gefin út og í júlí síðastliðnum, en maí og júní voru einnig metmánuðir.
Vegna mikilla stýrivaxtalækkana hefur eftirsókn í óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum aukist mjög, en slík lán bjóða upp á lægri mánaðarlega kostnaðarbyrði þessa stundina en nokkur önnur lán. Kostnaðarbyrði slíkra lána hefur stórlækkað á síðustu fjórum árum, en samkvæmt dæmi HMS um 40 ára lán til 21 milljón króna hefur hún lækkað um tæp 40 prósent, eða úr 130 þúsund krónum á mánuði niður í 80 þúsund.
Aukin eftirspurn
Þessa aukningu í húsnæðiskaupum sést einnig í nýlegum tölum um þinglýsta kaupsamninga. Samkvæmt skýrslunni fjölgaði þeim um fimmtung í júlímánuði miðað við sama mánuð í fyrra. Von er á enn meiri fjölgun kaupsamninga í september ef litið mikla fjölgun íbúða sem tekið hefur verið af sölu þá, en sögulega hefur sú þróun haldist í hendur við fjölgun íbúðarkaupa.
Fjölgunin helst í hendur við styttri meðalsölutíma og fjölgun íbúða sem seldar eru á yfirverði. Á höfuðborgarsvæðinu voru um 29 prósent íbúða seldar á eða yfir ásettu verði og hefur það hlutfall hækkað nokkuð frá því í byrjun árs, en það var þá nær 20 prósentum.
Við fyrstu sýn virðist fjölgun íbúðarkaupa ekki hafa haft veruleg áhrif á almennt húsnæðisverð, en á höfuðborgarsvæðinu hækkaði verðið um 4,3 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Mikla verðhækkun má þó sjá ef horft er á eldri íbúðir, en allt húsnæði sem telst ekki til nýbygginga hefur hækkað um rúm 7 prósent á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma
Minna framboð
Á sama tíma og eftirspurnin hefur aukist á íbúðum má þó greina töluverðan samdrátt í nýbyggingum. Veltan á byggingarmarkaði hefur dregist saman um 11 prósent að raunvirði milli ára, en sá samdráttur hófst á sama tíma og heimsfaraldurinn skall á í mars og apríl. Fjöldi starfandi í þessum geira hefur einnig farið fækkandi á síðustu árum, en fækkunin hefur verið sérstaklega mikil á meðal innflytjenda sem starfa í greininni.