Fiskeldið á Vestfjörðum er hin nýja viðspyrna, segir Einar K. Guðfinnsson, sem vinnur að fiskeldismálum fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Laxeldi í sjókvíum er mengandi iðnaður sem ógnar lífríki Íslands, segir Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins.
Þessi tvö sjónarmið voru rauði þráðurinn í framsögum þeirra tveggja á fundi Landverndar um fiskeldi, umhverfi og samfélag, sem fram fór á fimmtudagskvöldið. Fundurinn var hluti af dagskránni Vestfirðir – auðlindir, náttúruvernd og mannlíf sem samtökin stendur að.
Umræðan um fiskeldið hefur verið að breytast mikið síðustu mánuðina og eru „flestir farnir að gera sér grein fyrir því að fiskeldi er komið til að vera,“ sagði Einar. Hann fullyrti að fyrirtæki í fiskeldi á Íslandi vildu ganga um auðlindina með ábyrgum hætti reyndu að gera sitt besta í því samhengi þó að ýmislegt hafi farið úrskeiðis.
Þörf væri á fjölbreyttara atvinnulífi á Vestfjörðum, grein sem verulega munaði um, og fiskeldið væri dæmi um það. „Fiskeldið er ennþá mjög smátt í sniðum hjá okkur,“ sagði hann. Framleiðsla á laxi í ár yrði um 32 þúsund tonn en hún var um 25 þúsund tonn í fyrra. „Við erum að sækja í okkur veðrið og miðað við áhættumat Hafrannsóknarstofnunar þá verður fiskeldið kannski álíka stórt og í Færeyjum innan ekki mjög margra ára.“
Ísland hefur þá sérstöðu, að mati Einars, að fyrir um fimmtán árum var tekin sú ákvörðun að hafa „landið að langmestu leyti lokað fyrir laxeldi í sjó“. Það var að hans mati skynsamlegt og gaf Íslendingum tækifæri til að þróa sitt eldi með ákveðnum hætti, fyrst og fremst á Vestfjörðum og Austfjörðum.
Hvað umhverfisáhrifin varðar sagði Einar að tölur um slysasleppingar hér við land væru lágar, hvernig sem á þær væri litið. Í áhættumati Hafró væri gengið „mjög langt í því að setja girðingarnar varðandi fiskeldið þannig að við séum með varúðarnálgun í þessum efnum til að bregðast sérstaklega við áhyggjum manna um að laxeldi sé ósamrýmanlegt uppbyggingu villtu laxastofnanna“. Gögn sýndu að áhættan af fiskeldi í samræmi við matið væri mjög lítil og staðbundin.
Samkvæmt áhættumatinu sem Einar nefndi telur Hafró að firðirnir þar sem eldi er heimilað geti borið rúmlega 106 þúsund tonna eldi en fyrra mat var 71 þúsund tonn. „Guði sé lof þá erum við að sjá aukningu. Hér á Vestfjörðum er til að mynda verið að opna á [eldi] í Ísafjarðardjúpi.“
Einar sagði laxeldi hafa verið lítið framan af en að árið 2016 fór að muna um það. Þegar menn tali um að það sé „undarlegt að fiskeldið sé ekki farið að greiða tekjuskatt“ þá skýrist það af því að mörg ár einkenndust af undirbúningi og uppbyggingu greinarinnar án þess að nokkrar tekjur sem um munaði kæmu inn. „Sem betur fer sjáum við til dæmis að Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtæki okkar Íslendinga, skilaði hagnaði upp á einhverjar hundruð milljóna í fyrra.“
Á síðasta ári var útflutningsverðmæti eldisfisks 25 milljarðar króna á sama tíma og verðmætin af uppsjávarfiski voru 49 milljarðar. „Hér er ekki um neitt smáræði að ræða.“
Sagði hann fiskeldið eiga eftir að skipta máli á þeim erfiðu tímum í efnahagslífinu sem framundan væru vegna samdráttar í ferðaþjónustu og fleiri greina.
Margvíslegur skaði
„Laxeldi í sjókvíum er mengandi iðnaður sem ógnar lífríki Íslands,“ sagði Jón Kaldal. Slík starfsemi þurfi að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum og með því þurfi að hafa eftirlit. Um grafalvarlegt mál væri að ræða í ljósi þess að hnignun dýralífs jarðar hafi aldrei verið hraðari. Villti laxinn væri ein af þeim dýrategundum sem ætti nú undir högg að sækja vegna mannanna verka. „Og helsta manngerða hættan – þar er sjókvíaeldi,“ sagði Jón, „vegna skaðans af sníkjudýrum, sjúkdómum og erfðablöndun frá þessum iðnaði.“
Hann sagði að það væri því ekki alls kostar rétt að í fiskeldi fælist engin hætta. Nefndi hann sem dæmi að frá árinu 2016 hefði regnbogasilungur úr eldi gengið upp í næstum því hverja einustu á á Íslandi. „Það er eðli fiska, þeir eru með sporð og þeir geta synt og þeir geta synt langt.“ Þetta gerist líka með eldislaxinn og um það væru þegar dæmi.
Um 45 milljónir eldislaxa verða í sjókvíum við Ísland ef fiskeldið verður í takt við nýtt áhættumat Hafró. Miðað við forsendur um hlutfall fiska sem sleppa muni 85 þúsund fiskar sleppa út í hafið við Ísland á hverju einasta ári. „Það er um það bil sama tala og gjörvallur villti stofninn hér telur.“
Vitnaði hann í niðurstöðu norska vísindaráðsins um að flóttafiskur úr eldi og laxalús væri mesta hættan sem steðji að villta laxinum. Í Noregi beri 65 prósent villtra laxastofna merki erfðablöndunar.
Skelfileg tilhugsun
Jón minntist sérstaklega á Ísafjarðardjúp þar sem stefnir í mikið fiskeldi á næstu árum. Vitnaði hann í því sambandi til nýrrar skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga sem gerð var fyrir sjávarútvegsráðuneytið og birt í lok ágúst. Í henni beina skýrsluhöfundar því til Hafró að íhuga að nota lægri viðmiðunarmörk í áhættumati sínu fyrir minni stofna en stærri. Ástæðan sé sú að fyrirliggjandi vísindagögn bendi til þess að litlir og dreifðir stofnar séu hlutfallslega viðkvæmari fyrir innblöndun en þeir stærri og þéttari. Sagði Jón þetta einmitt eiga við um villta laxastofninn í Djúpinu og að niðurstaðan væri vísbending um að Hafró hefði verið of fljót á sér í áhættumatinu. Í skýrslunni er einnig að finna svör Hafró við gagnrýni skýrsluhöfunda og segist stofnunin ætla að skoða ábendingarnar „mjög alvarlega,“ sagði Jón.
Að setja sjókvíaeldi niður í Ísafjarðardjúpi finnst Jóni skelfileg tilhugsun. Í næsta nágrenni Djúpsins séu gjöfulustu fiskimið landsins og mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir margar tegundir. „Nú er verið að fara að gera tilraun í lífríkinu án þess að menn viti afleiðingarnar.“
Einar hafnaði þessu og sagði ekkert benda til þess að laxeldi hefði neikvæð áhrif á afkomu annarra fiskistofna heldur þvert á móti. Sjómenn fyrir vestan hefðu sagt honum frá því að fiskurinn væri að leita í fóðurleifar þær sem sannarlega féllu til frá eldinu. „Það er ekkert sem bendir til þess að fiskeldið hafi neikvæð áhrif á botnfiskstofnana, það væri þá auðvitað búið að koma fram í þeim löndum þar sem fiskeldi hefur verið stundað um árabil.“
Hvað mengunina frá eldinu varðar benti Jón á að sjókví væri ekkert annað en netapoki sem hangi á grind. Allt fari í gegnum net og það geri fiskur líka ef netið rofnar. Ef 106 þúsund tonna laxeldi yrði leyft hér við land þá myndi mengunin jafnast á við skólp frá 1,7 milljónum manna. Byggði Jón þessa útreikninga á mati norsku umhverfisstofnunarinnar sem segi að frá hverju tonni af laxeldi renni ígildi skólpmengunar frá sextán manneskjum.
Neikvæðu áhrifin eru þó að mati Jóns ekki eingöngu bundin við mengun og erfðablöndun. Sníkjudýr á fiskum í eldi séu skæð og lyfin og eitrið sem notað er gegn þeim sé sömuleiðis slæmt fyrir lífríkið. „Þannig að við erum að tala um að það sem fer úr kvíunum eru fóðurleifar, saur frá fiskum, skordýraeitur og lyfjafóður. Þetta er ekki umhverfisvæn framleiðsla.“
Jón ræddi einnig um dýrið sjálft sem verið er að rækta og benti á að beinlínis væri gert ráð fyrir því að 20 prósent laxanna lifðu ekki af vistina í kvíunum. Ár eftir ár hafi norsk eldisfyrirtæki sagst ætla að reyna að draga úr þessum dauða en ekkert hafi áunnist. Einnig nefndi hann laxalúsina. Hún væri mjög skæð þegar hún fyndi marga hýsla saman eins og í eldiskvíum. Þá yrði nánast kjarnorkusprenging; lúsin fjölgaði sér gríðarlega hratt og æti sig svo inn í hold og jafnvel heila dýranna.
Líta ætti frekar til uppbyggingar landeldis. „Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum segjum að við getum byggt upp umhverfisvænt og sjálfbært eldi á Íslandi sem ógnar hvorki umhverfi né lífríki landsins. Því við erum ekki á móti fiskeldi heldur þeirri gamaldags aðferð sem sjókvíaeldi er og er skaðlegt fyrir náttúruna og umhverfið.“
Hann og Einar voru þó sammála um að landeldi gæti ekki orðið gríðarlega umfangsmikið hér á landi. Einar sagði að í raun væri þróunin orðin sú að landeldi væri að aukast, þ.e. seiðin eru alin upp á landi þar til þau verða það stór að minni hætta og skaði verði af því að þau sleppi úr kvíunum. Þannig sé orðin til sambland af sjókvíaeldi og landeldi.
Enginn arður enn
Spurður hvert arður af starfsemi fiskeldisfyrirtækja á Íslandi muni fara sagði Einar að hann muni „auðvitað lenda á Íslandi.“ Þeir kostnaðarliðir sem til féllu í rekstrinum væru að stærstum hluta innlendir. „Ekkert af þessum [erlendu] fiskeldisfyrirtækjum sem hafa verið að fjárfesta á Íslandi eru farin að fá arð. Hingað til hafa þeir verið að leggja fram fjármuni og arðgreiðslurnar koma ekki fyrr en menn eru betur komnir fyrir vind.“
Mikilvægast væri þó að íslenskt samfélag nyti góðs af fiskeldinu á margan hátt, m.a. vegna útflutningsverðmæta, uppbyggingarinnar og starfanna sem sköpuðust. Að sögn Jóns er því ósvarað hversu mikið af gjaldeyri fari úr landi vegna kaupa á ráðgjöf, búnaði og fóðri frá hinum norsku eigendum á móti útflutningsverðmætunum sem Einari væri tíðrætt um.
„Sjókvíaeldi, þessi aðferð við að framleiða matvöru, hún tilheyrir liðnum tíma,“ sagði Jón. „Ég held að það verði litið á verksmiðjubúskap tuttugustu aldarinnar sem einn versta glæp mannkyns innan örfárra kynslóða. Og sjókvíaeldi er klárlega hluti af þeim skelfilega iðnaði.“
Hér að neðan er hægt að horfa á fund Landverndar í heild.
Vestfirðir - fiskeldiVestfirðir fiskeldi
Posted by Landvernd umhverfisverndarsamtök on Thursday, September 10, 2020