Lífeyrissjóðirnir virðast hafa fjárfest fyrir 68 milljarða króna í innlendum hlutabréfum í mars, ef litið er á breytingar á virði þeirra umfram breytingu í vísitölu hlutabréfa. Þetta er mesti mismunurinn milli þessa tveggja stærða milli mánaða. Þetta kemur fram ef tölur Seðlabankans um eignir lífeyrissjóðanna eru bornar saman við vísitölu Kauphallarinnar.
Þar sem tiltölulega lítil breyting hefur verið á fjárfestingum íslenskra lífeyrissjóða innanlands milli mánaða hefur eign þeirra í innlendum hlutabréfum haldist í hendur við vísitölu kauphallarinnar. Þetta sést á mynd hér að neðan, sem sýnir þróun beggja stærða frá ársbyrjun 2018.
Í mars var hins vegar mikill munur, en þá lækkaði virði hlutabréfa þeirra um 4 prósent á meðan vísitala Kauphallarinnar lækkaði um 17 prósent. Þetta gefur til kynna að lífeyrissjóðirnir hafi fjárfest töluvert í íslenskum hlutabréfum í mánuðinum.
68 milljarða fjárfesting í mars
Ef gert er ráð fyrir að eignasafn lífeyrissjóðanna hafi fylgt vísitölu Kauphallarinnar í mars má því ætla að sjóðirnir hafi fjárfest í íslenskum félögum fyrir um 68 milljarða íslenskra króna í innlendum bréfum í mars. Breytingin var þó nær engin í maí og apríl, en í júní og júlí virðast þeir hafa selt hluti í innlendum fyrirtækjum fyrir um 38 milljarða króna, ef sömu forsendur eru notaðar.
Mismunurinn á milli breytingu eigna lífeyrissjóðanna í íslenskum hlutabréfum og vísitölu kauphallarinnar hefur ekki mælst jafnmikill í að minnsta kosti tíu ár, ef tekið er tillit til magns innlendra eigna lífeyrissjóðanna.