Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, ætlar að sækjast eftir að leiða lista flokksins í einhverju kjördæminu á höfuðborgarsvæðinu í komandi þingkosningum, sem fara fram eftir rúmlega ár. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hann hefur birt á Facebook-síðu sinni.
Þar segir hann nokkrir flokksmenn hafi spurt sig að því hvort hann ætli sér að bjóða sig fram til formanns eða varaformanns á komandi Landsþingi Viðreisnar, sem hefst 25. september. „Mér þykir auðvitað vænt um spurninguna, en í stað þess að leggjast undir feldinn fræga hef ég svarað því að ég hyggist áfram gefa kost á mér til stjórnar flokksins.“
Var fyrsti formaður Viðreisnar
Í apríl 2014 fór hópur Sjálfstæðismanna að hittast til að vinna að mótun nýs framboðs. Benedikt var þar á meðal. Fyrsti formlegi stefnumótunarfundur hins nýja stjórnmálaafls var haldinn 11. júní 2014. Um svipað leyti var tilkynnt að flokkurinn myndi heita Viðreisn, eftir Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat við völd á Íslandi frá 1959 og fram til ársins 1971.
Tæpu ári síðar, 17. mars 2015, var haldinn fyrstu fundur stuðningsmanna flokksins. Flokkurinn var loks formlega stofnaður á fundi í Hörpu 24. maí 2016 sem um 400 manns mættu á. Þar var Benedikt kjörinn fyrsti formaður hans.
Myndaði skammlífa ríkisstjórn
Benedikt leiddi svo lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í kosningunum sem fram fóru haustið 2016, en það voru fyrstu kosningarnar sem flokkurinn tók þátt. Viðreisn fékk 10,5 prósent atkvæða og sjö þingmenn kjörna, þar á meðal Benedikt. Eftir langvinna stjórnarkreppu og mýmargar tilraunir til að mynda stjórn þá varð til ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar með þátttöku Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Benedikt varð fjármála- og efnahagsráðherra í þeirri ríkisstjórn.
Í tilkynningunni segir Benedikt að þegar hann hafi leitt listann í Norðausturkjördæmi árið 2016 hafi hann hugsað málin þannig að ef flokkurinn ætti að geta komið að stjórnarmyndun yrði hann að ná þingsætum í dreifbýlinu og leggja talsvert undir. „Formaðurinn reyndi fyrir sér í Norðausturkjördæmi og varaformaðurinn, Jóna Sólveig Elínardóttir, í Suðurkjördæmi. Bæði náðu kjöri.“
Segir popúlista sækja fram
Benedikt segir að nú hafi aðstæður hins vegar gerbreyst. „Árin undir núverandi ríkisstjórn eru óhagstæð okkar meginbaráttumálum. Popúlistar sækja fram og ná þingsætum. Viðreisn hefur verið meginverkefni mitt allt frá árinu 2014. Það hefur verið gæfa mín að starfa þar með mörgu afbragðsfólki. Ég vil enn stuðla að því að málstaður Viðreisnar eflist og flokkurinn verði í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn að ári.
Aðeins þannig er von til þess að sækja í frelsisátt, sem gerist ekki nema við náum mjög góðum árangri á Suðvesturhorninu. Ég nýt mín best þar sem baráttan er hörðust og vona að ég njóti trausts til að vera í fremstu víglínu.“
Margir um oddvitasætin
Í síðustu könnun MMR, sem birt var í byrjun síðustu viku, mældist Viðreisn með um tíu prósent fylgi. Flokkurinn hefur að jafnaði mælst vel yfir kjörfylgi það sem af er yfirstandandi kjörtímabili.
Fyrr á þessu ári ákvað þáverandi varaformaður Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson, að hætta á þingi til að hverfa aftur til starfa hjá BM Vallá og tengdum félögum. Þorsteinn var oddviti flokksins í Reykjavík norður í síðustu kosningum og því er að minnsta kosti eitt oddvitasæti laust. Fyrir liggur að Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði, ætlar að sækjast eftir því að verða næsta varaformaður Viðreisnar á Landsþingi Viðreisnar sem fer fram 25. september næstkomandi. Nái hann því markmiði má ætla að Daði Már muni einnig sækjast eftir að fá oddvitasæti á lista Viðreisnar. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem tók sæti Þorsteins á þingi þegar hann hætti, þykir einnig líkleg til að sækjast eftir því að vilja leiða lista. Nær öruggt er talið að Hanna Katrín Friðriksson, oddviti Viðreisnar í Reykjavík suður, muni vilja halda áfram sínu starfi þar í komandi kosningum og í Suðvesturkjördæmi er á fleti Þorgerður Katrín, formaður flokksins.
Í morgun sendi ég eftirfarandi tilkynningu til félaga minna í Viðreisn: Undanfarna daga hef ég spjallað við allmarga...
Posted by Benedikt Jóhannesson on Monday, September 14, 2020