Sprotafyrirtækið Avo, sem sérhæfir sig í gagnastjórnun fyrirtækja, hefur tryggt sér fjármögnun að andvirði 419 milljóna króna frá fjárfestahópi úr Kísildalnum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni er fjárfestahópurinn leiddur af bandaríska vísisjóðnum GGV Capital, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýsköpun á ýmsum þróunarstigum fyrirtækja og stýrir um sex milljörðum dala, sem samsvarar 840 milljörðum króna.
Sjóðirnir Heavybit og Y combinator tóku einnig þátt í fjárfestingunni. Heavybit sérhæfir sig í að fjárfesta í forritaralausnum, en Y Combinator er nýsköpunarhraðall sem hefur fjárfest í Airbnb, Stripe og Dropbox.
Einnig tóku íslensku fjárfestingasjóðirnir Brunnur og Crowberry þátt í fjármögnunni, auk annarra fjárfesta úr Kísildalnum.
Avo er sprotafyrirtæki sem var stofnað árið 2018 af Stefaníu Bjarneyju Ólafsdóttur og Sölva Logasyni, en þau unnu bæði hjá íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Plain Vanilla Games við gerð leikjarins QuizUp. Fyrirtækið sérhæfir sig í skipuleggingu, skráningu og stjórnun gagna fyrir fyrirtæki. Samkvæmt tilkynningunni samþættist AVO við önnur greiningartól sem fyrirtæki eru þegar með í notkun, „svo að teymi geti gefið vörur sínar hraðar út án þess að fórna gagnagæðunum.”