Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að ritstjórn Fótbolta.net hafi brotið gegn siðareglum BÍ þegar knattspyrnukona í Breiðabliki, sem kom smituð af COVID-19 frá Bandaríkjunum, var nafngreind í frétt miðilsins 25. júní síðastliðinn. Brotið telst alvarlegt, að mati siðanefndarinnar.
Í úrskurðinum, sem birtur hefur verið á vef BÍ, er vísað til 3. og 4. greinar siðareglnanna, sem kveða á um að blaðamenn skuli sýna fyllstu tillitssemi í vandasömum málum og forðast allt það sem valdið geti saklausu fólki, eða fólki sem eigi um sárt að binda, óþarfa sársauka og vanvirðu annars vegar og hins vegar að blaðamenn skuli hafa í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefjist nafnbirtingar.
Mál knattspyrnukonunnar og fjölmiðlaumfjöllun um það vakti töluverða athygli og umræðu. Knattspyrnukonan steig sjálf fram, meðal annars í viðtali við mbl.is og lýsti því að það hefði tekið á sig að vera nafngreind í fjölmiðlum.
Forsvarsmenn Fótbolta.net, framkvæmdastjórinn Hafliði Breiðfjörð og ritstjórarnir Magnús Már Einarsson og Elvar Geir Magnússon, sögðu í andsvörum sínum til siðanefndar BÍ að þeir hefðu ekki brotið gegn siðareglum og fóru einnig fram á frávísun af þeirri ástæðu að málið hefði einnig verið kært til Persónuverndar, en þeirri kröfu var hafnað.
Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sérstök nauðsyn til að upplýsa um nafn knattspyrnukonunnar og birta mynd af henni í tengslum við fréttaflutninginn.