Samkvæmt nýrri skýrslu starfshóps fjármálaráðuneytisins um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnarmálum gæti ákvörðunin um að taka upp tvöfalda skimun á landamærunum kostað þjóðarbúið um 13 til 20 milljarða út árið. Þó er hópurinn óviss um eigin útreikninga og bendir á að aðrir þættir en sóttvarnaraðgerðir virðast hafa áhrif á efnahagsumsvif.
Starfshópurinn er leiddur af Má Guðmundssyni fyrrverandi seðlabankastjóra, en í honum eru einnig Tómas Brynjólfsson skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Skýrslan vísar til þess að fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll minnkaði snögglega eftir að stjórnvöld fyrirskipuðu að allir komufarþegar þyrftu annað hvort að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli eða tveggja vikna sóttkví. Sú fækkun hafi haldið áfram í september, en daglegur fjöldi farþega á vellinum var þá orðinn nokkur hundruð, miðað við fimm þúsund í byrjun ágústmánaðar.
Út frá breytingunni í farþegatölum gerir hópurinn ráð fyrir að úrræði stjórnvalda hafi minnkað fjölda ferðamanna um 70 prósent. Ef miðað er við að hver ferðamaður dvelur hér á landinu í tíu daga og eyði að meðaltali 100 til 120 þúsund króna áætlar hópurinn að þjóðarbúið verði af um 13-20 milljörðum króna vegna fyrirkomulagsins út árið. Þetta jafngildi 1,2 til 1,8 prósentum af landsframleiðslu.
Forsendur óvissar
Í skýrslunni er þó tekið fram að mat hópsins á tapi ferðaþjónustunnar vegna tvöfaldrar skimunar er byggt á forsendum sem óvíst er hvort haldi. Þeirra á meðal er sá ferðamannafjöldi sem hefði annars komið til Íslands ef úrræðanna nyti ekki, en hópurinn gerir ráð fyrir því að hann hefði haldist óbreyttur frá því sem hann var í byrjun ágústmánaðar, ef tekið er tillit til árstíðarbreytinga.
Hópurinn nefnir einnig að vísbendingar erlendis frá bendi til þess að aðrir þættir hafi áhrif á umsvif í efnahagslífinu heldur en opinberar sóttvarnaraðgerðir. Þar vísa þeir til rannsóknar frá Bandaríkjunum sem sýnir að neysla og atvinnustig hafi minnkað áður en tilkynnt væri um lokanir, auk þess sem umsvifin hafi haldist í skötulíki þrátt fyrir tilkynningar um opnun.
Þar að auki kemur fram í skýrslunni að ólíklegt sé að slakari sóttvarnaraðgerðir við landamærin myndi skila sér í auknum fjölda ferðamanna þegar faraldurinn er á uppleið, þar sem veitinga-og ferðaþjónustufyrirtæki þyrftu þá að grípa til harðari ráðstafanna innanlands vegna aukna smithættu.