Elísabet Englandsdrottning verður brátt ekki lengur þjóðhöfðingi Karíbahafsríkisins Barbados. Ríkisstjórn eyríkisins telur að tími sé kominn til þess að skilja nýlendutímann alfarið að baki, samkvæmt stefnuræðu sem flutt var í upphafi þingstarfa þar í gær.
Barbados lýsti yfir sjálfstæði frá Bretlandi árið 1966, eftir að hafa verið bresk nýlenda allt frá 1625, en ríkið er þó enn eitt af þeim fimmtán ríkjum utan Bretlands þar sem Elísabet er þjóðhöfðingi.
Breska ríkisútvarpið BBC fjallaði um málið í gær og hafði eftir talsmanni Buckingham-hallar að ákvörðun um þetta væri alfarið í höndum ríkisstjórnar og íbúa Barbados og eftir ónefndum heimildarmanni hjá konungsfjölskyldunni að tíðindin hefðu ekki verið með öllu óviðbúin.
Ef Barbadosar losa sig við drottninguna og stofna lýðveldi verður það í fyrsta sinn sem ríki losar sig undan breska þjóðhöfðingjanum síðan árið 1992, þegar eyríkið Máritíus í Indlandshafi gerðist lýðveldi.
Samkvæmt stefnuræðu ríkisstjórnar Barbados, sem var flutt þinginu af yfirlandsstjóranum (og fulltrúa drottningar í landsstjórninni) Söndru Mason, en skrifuð af forsætisráðherranum Miu Mottley, er stefnt að því að lýðveldi verði stofnað á Barbados áður en eyríkið fagna 55 ára sjálfstæði sínu 30. nóvember á næsta ári.
Í ræðunni vísaði Mason til viðvörunarorða fyrsta forsætisráðherra Barbados, Errol Walton Barrow, sem sagði það óráð að „hangsa á forsendum nýlenduherranna“. Hún sagði að það væri enginn vafi um að íbúar Barbados væru færir um að stýra sér sjálfir.
Barbados to relieve the UK Queen of her duties by 2021.
— Kristen Clarke (@KristenClarkeJD) September 16, 2020
“Barbados will take the next logical step toward full sovereignty and become a republic by the time we celebrate our 55th anniversary of independence.”
This is the globalization of #BLM. pic.twitter.com/gk7p5qn6mL
„Tíminn er kominn til þess að skilja nýlendufortíð okkar að baki. Barbadosar vilja barbadoskan þjóðhöfðingja,“ sagði yfirlandsstjórinn í ræðu sinni, sem sjá má brot úr í myndskeiðinu hér að ofan.
Hugmyndin rædd síðan á áttunda áratugnum
Það að gera Barbados að lýðveldi er áratugagömul hugmynd, en hefur ekki orðið að veruleika. Samkvæmt umfjöllun barbadoska miðilsins Barbados Today réðust stjórnvöld á Barbados í fýsileikakönnun á því að segja skilið við drottninguna og stofna lýðveldi árið 1979, en niðurstaðan varð sú að halda í stjórnarskrárbundið konungsveldi sem stjórnskipulag, þar sem það væri í takt við vilja þjóðarinnar.
Árið 1996 var svo sérstök nefnd skipuð til að fara yfir stjórnarskrá ríkisins og sú nefnd mælti með stofnun lýðveldis. Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um lýðveldisstofnun var lagt fram árið 2000, en málið sofnaði að endingu í meðförum þingsins.
Nú er stefnt að því að hrinda þessu í framkvæmd, undir stjórn Miu Mottley, sem er fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra á Barbados.
Eyríkið yrði með þessu fjórða ríkið í Karíbahafi til þess að segja skilið við breska konungsveldið og Elísabetu drottningu, en það gerðu Gvæjana, Trínídad og Tóbagó og Dóminíka þegar á áttunda áratugnum. Þessi þrjú ríki eru þó enn hluti af Samveldinu, Commonwealth, ríkjasambandi 54 fullvalda ríkja sem flest eru fyrrverandi nýlendur breska heimsveldisins.
Ef Barbados slítur á þjóðhöfðingjatengslin við Bretland verður Elísabet drottning þjóðhöfðingi eftirtalinna ríkja: Antígva og Barbúda, Ástralíu, Bahamas, Belís, Kanada, Grenada, Jamaíku, Nýja Sjálands, Papúa Nýju-Gíneu, Saint Kitts og Nevis, Saint Lucia, Saint Vincent og Grenadín, Salomónseyja og Túvalú.