Einn er á sjúkrahúsi og 75 í einangrun hér á landi með COVID-19. Í gær greindust þrettán ný smit innanlands og aðeins einn úr þeim hópi var í sóttkví. Þetta veldur Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni áhyggjum. Fjöldi geti bent til þess að dreifing veirunnar sé meiri en talið var.
Í viðtali við RÚV segir hann tíðindin vísbendingu um að landsmenn séu ekki að gæta nógu vel að sér þegar komi að hinum margumtöluðu einstaklingsbundnu sóttvörnum. „Þessi veira er fljót að koma í bakið á okkur ef við gætum ekki að okkur,“ sagði hann við RÚV.
Nokkrir þeirra sem greinst hafa síðustu daga tengjast Háskóla Íslands og hefur Íslensk erfðagreining boðist til að skima fyrir veirunni meðal starfsmanna og nemenda skólans. Fyrirtækið hefur boðist til að gera slíkt hið sama í Háskólanum í Reykjavík. Með því móti fáist betri mynd á raunverulega útbreiðslu veirunnar, að sögn Þórólfs.
Hinir nýgreindu tengjast ekki allir með augljósum hætti og því segir Þórólfur erfitt að segja hvort að um nýja hópsýkingu sé að ræða. „Þetta gæti verið vísbending um að eitthvað meira geti verið í aðsigi,“ sagði hann við RÚV.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar talaði á sömu nótum í viðtali við Vísi í dag og sagði að Íslendingar ættu að búa sig undir nýja bylgju faraldursins hér á landi eftir 1-2 vikur. Sagði hann rannsókn á sýnum úr þeim sem greindust í gær gæfu til kynna að fólkið sé með „mikið af veiru í sér,“ eins og hann orðar það við Vísi.
Hann vill ekki ganga svo langt að segja að líkur á nýrri bylgju á næstu dögum séu yfirþyrmandi en nægilegar til þess að við þurfum að vera undir það búin.
Í dag var tilkynnt að tveir starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Reykjavík hafi greinst með COVID-19, annars vegar í Grafarvogi og hins vegar í Breiðholti. Báðir starfa þeir náið með einstaklingum sem þurfa sólarhringsþjónustu. Íbúar kjarnanna tveggja búa allir í eigin íbúðum og fá því
alla nauðsynlega þjónustu inn á sín heimili.
Í íbúðakjarnanum í Grafarvogi þurfa sex starfsmenn að fara í sóttkví og um 20 í Breiðholti. Unnið er að því að manna vaktirnar með öðru starfsfólki velferðarsviðs. Báðir íbúarnir sem fengu þjónustu viðkomandi starfsmanna eru komnir í sóttkví. Þeir fara í sýnatöku í dag og fylgst verður náið með líðan þeirra.