Stefanía Guðrún Halldórsdóttir hefur verið ráðin til Eyrir Venture Management til þess að leiða nýjan vísisjóð sem Eyrir er að hleypa af stokkunum, Eyrir Sprotar II. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem rekur vísisjóðinn Eyrir Sprotar ásamt því að annast allar sprotafjárfestingar Eyrir Invest.
Vísisjóðurinn sem Stefanía mun stýra mun sérhæfa sig í að styðja við uppbyggingarferli íslenskra sprotafyrirtækja.
„Ég er afskaplega spennt fyrir því að efla og vinna að framgangi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á Íslandi. Eyrir hefur verið í fararbroddi í fjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum hérlendis og ég vonast til þess að geta lagt mitt af mörkum til þess að þau verkefni og ný tækifæri njóti framgangs og velgengni“, er haft eftir Stefaníu Guðrúnu í fréttatilkynningu.
Stefanía Guðrún kemur til Eyrir Venture Management frá Landsvirkjun þar sem hún hefur undanfarin ár gegnt stöðu framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs. Áður starfaði Stefanía hjá CCP Games í átta ár, síðast sem framkvæmdastjóri CCP á Íslandi og þar áður sem yfirþróunarstjóri CCP í Shanghai í Kína og þróunarstjóri á Íslandi.
Stefanía er með M.Sc. í umhverfisfræði frá tölvufræðiskor og B.Sc. í landfræði frá Háskóla Íslands. Stefanía er gift Snorra Árnasyni, verkfræðingi, og eiga þau þrjú börn.
Ingvar og Sigurlína einnig til liðs við Eyri
Auk Stefaníu hafa Ingvar Pétursson og Sigurlína Ingvarsdóttir nýverið gengið til liðs við Eyrir Venture Management. Þau taka sæti í fjárfestingarráði og stjórn hins nýja vísisjóðs sem verið er að setja á fót.
Ingvar býr að áratuga reynslu sem stjórnandi í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum og starfaði síðast sem framkvæmdastjóri fjármála hjá Nintendo.
Sigurlína er margreyndur stjórnandi úr tölvuleikjaiðnaði á alþjóðavísu. Hún starfar í dag sem framleiðandi hjá Bonfire Studios í Bandaríkjunum, en hefur einnig meðal annars verið yfirframleiðandi hjá FIFA í þróunarteymi Electronic Arts.
Einnig hefur Magnús Halldórsson, einn stofnenda Kjarnans, starfað með Eyrir Venture Management frá því snemma á árinu. Hann er búsettur í Seattle og starfar að því að opna og styrkja samtöl við erlenda fjárfesta með margs konar samstarf í huga.
„Það er mikill liðsstyrkur fólginn í því að fá þetta öfluga og reynslumikla fólk til liðs við okkur“, segir Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri Eyrir Venture Management, í fréttatilkynningunni.
„Við bjóðum þetta öfluga fólk velkomið til starfa og væntum mjög mikils af þeim í framtíðinni. Tækifærin eru mörg og verið er að byggja upp fjölmörg áhugaverð fyrirtæki með þátttöku Eyrir Venture Management og nýta þannig þá reynslu sem við höfum fengið í gegnum Eyrir Invest og virka aðkomu okkar að uppbyggingu Marel, Össurar og fleiri fyrirtækja,“ segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Venture Management.