Eignarhaldsfélagið Steinn, í meirihlutaeigu Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja, er ekki lengur á meðal 20 stærsta eigenda fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar.
Þegar listi yfir 20 stærstu hluthafa þess í lok júlí var birtur kom fram að félag Þorsteins ætti 0,67 prósent hlut í Sýn. Félagið hafði ekki verið á lista yfir stærstu hluthafa mánuði áður og ljóst að það hafði bætt við sig hlutabréfum í júlí.
Samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa Sýnar, sem birtur er á heimasíðu fyrirtækisins og sýnir eignarhald þess 15. september síðastliðinn, þá er Eignarhaldsfélagið Steinn ekki lengur á meðal 20 stærstu hluthafa, en einungis er birtur listi yfir þá. Sá eigandi sem er í 20. sæti yfir stærstu eigendur Sýnar á 0,57 prósent hlut og því liggur fyrir að félag Þorsteins Más hefur selt sig niður í fyrirtækinu á síðustu vikum.
Virði þess hlutar sem sem Eignarhaldsfélagið Steinn átti í Sýn í lok júlí var tæplega 48 milljónir króna miðað við gengi bréfa á þeim tíma. Félagið hélt utan um eignarhlut Þorsteins Más í Samherja sem hann framseldi að nánast öllu leyti til barna sinna í sumar, en eigið fé þeirra tveggja félaga sem mynda Samherjasamstæðuna, Samherja hf. og Samherja Holding, var 111 milljarða króna í lok árs 2018. Félögin hafa ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2019 þrátt fyrir að frestur til þess sé liðinn, en þeim á að skila til ársreikningaskrár fyrir 31. ágúst.
Bréf í Sýn hafa hækkað
Sýn tapaði 410 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2020. Félagið tapaði 1,7 milljarði króna á árinu 2019 og hefur því tapað yfir tveimur milljörðum króna á einu og hálfu ári.
Tapið á öðrum ársfjórðungi, sem hófst í byrjun apríl og lauk í lok júní, nam 60 milljónum króna en það er umtalsvert minna tap en á sama ársfjórðungi í fyrra þegar tapið var 215 milljónir króna.
Tekjur Sýnar uxu milli ára. Þær voru 10,3 milljarðar króna á fyrri hluta ársins en höfðu verið rétt um tíu milljarðar króna á sama tímabili 2019. Tekjuhækkunin er að öllu leyti tilkomin vegna þess að tekjur Endor, upplýsingafyrirtækis sem stýrir ofurtölvum sem Sýn keypti í fyrra, komu inn í samstæðureikning félagsins í ár. Tekjur vegna hýsingar- og rekstrarlausna voru því 1.315 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 en þær voru engar í fyrra.
Bréf í Sýn hafa hækkað umtalsvert frá því að hálfsársuppgjör Sýnar var birt, sem gefur til kynna að fjárfestar hafi aukna trú á rekstri fyrirtækisins. Nú er markaðsvirði Sýnar rúmlega níu milljarðar króna. Innan liðins árs hefur virði bréfa í Sýn þó lækkað um tæp 13 prósent.