Skuldir heimila jukust um fimm prósent í fyrra og er það hraðasta aukning skulda frá árinu 2006. Samhliða skuldaaukningu hafa útlán banka og lífeyrissjóða til heimila aukist, en mikil aukning þeirra á undanförnum mánuðum bendir til enn meiri skuldsetningar í ár.
Hagstofa birti í dag tölur um efnahagsstöðu heimila og fyrirtækja fyrir árið 2019. Samkvæmt þeim jukust heildarfjáreignir heimilanna um rúmlega tíu prósent í fyrra, á meðan heildarskuldbindingar jukust um fimm prósent, ef tekið er tillit til landsframleiðslu.
Þetta er annað árið í röð sem skuldsetning heimila eykst, en hlutfall skulda heimila af landsframleiðslu hækkaði um rúmt prósent árið 2018. Á milli 2009 og 2018 lækkaði skuldahlutfall heimila hins vegar milli ára, eða stóð í stað. Leita þarf aftur til ársins 2006 til að finna meiri aukningu í skuldsetningu heimila og í fyrra, en þá jókst skuldahlutfall þeirra um átta prósent.
Samhliða aukinni skuldsetningu hefur útlánum banka og lífeyrissjóða til heimila fjölgað allmikið á síðustu árum. Seðlabankinn geymir þessar tölur, en ef hlutfall þeirra af landsframleiðslu er skoðað sést að lántaka heimila hjá þessum stofnunum hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 2017. Þessa þróun má sjá á mynd hér að neðan.
Í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans í ár stórjókst svo lántakan, en júní og júlí voru metmánuðir í útgáfu húsnæðislána, líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður. Gera má ráð fyrir að skuldsetning heimila muni aukast enn frekar í ár, samhliða aukinni lántöku hjá bönkum og lífeyrissjóðum.
Þrátt fyrir skuldaaukningu síðasta árs er eignastaða heimila betri en áður. Eigið fé heimila, sem eru eignir þess umfram skuldir, jókst töluvert í fyrra og er það nú rúmlega tvöfalt meira en árleg landsframleiðsla. Til samanburðar var það jafnt landsframleiðslunni fyrir tíu árum síðan, og hefur það því tvöfaldast sem hlutfall af henni.