Tæpur helmingur þeirra sem keyrðu jafnan á einkabíl í vinnuna innan höfuðborgarsvæðisins í júnímánuði hefðu frekar verið til í að ferðast til vinnu með einhverjum öðrum hætti. Færri óku til vinnu en síðasta sumar, en fleiri hjóluðu. Þetta er á meðal þess sem lesa má úr niðurstöðum nýbirtrar könnunar Maskínu á ferðavenjum vinnandi fólks á höfuðborgarsvæðinu.
Könnunin var gerð í lok júní, en Maskína lagði sömu spurningar einnig fyrir í ágúst í fyrra og aftur í febrúar á þessu ári og fjallaði um niðurstöðurnar á vef sínum í vikunni.
Þeim sem fara akandi í vinnuna fækkar á milli kannana, en í júní sögðust 63,3 prósent svarenda oftast fara keyrandi á einkabíl og 8 prósent sögðu að þeim væri skutlað í vinnuna. Í ágúst í fyrra sögðust 71,7 prósent aðspurðra oftast keyra einkabíl til og frá vinnu og 5,2 prósentum var oftast skutlað.
Hlutfall þeirra sem segjast fara hjólandi í vinnuna fer vaxandi, en 10,2 prósent sögðust oftast hjóla til og frá vinnu í júní, samanborið við 6,7 prósent í ágúst í fyrra. Hlutfallið fór reyndar niður í 4,4 prósent þegar spurt var í febrúar. Rúm 10 prósent aðspurðra segjast oftast ganga til og frá vinnu og hefur það hlutfall haldist nokkuð stöðugt á milli kannana, var 9,1 prósent í ágúst í fyrra en 10,7 prósent í febrúar síðastliðnum.
Rúm sjö prósent aðspurðra sögðust oftast taka strætó til og frá vinnu í júní og hefur það hlutfall vaxið lítillega á milli kannana Maskínu.
Flestir segjast vilja keyra, en þeim fer fækkandi
Í öllum þremur könnunum Maskínu sem gerðar hafa verið hefur það að fara á einkabíl sem bílstjóri verið sá fararmáti sem fólk vildi helst nota til að komast til og frá vinnu. En hlutfall þeirra sem helst myndu vilja keyra lækkar og er í nýjustu könnuninni einungis 35,3 prósent. Til viðbótar væru 4,5 prósent aðspurðra helst til í að fá far með einkabíl í vinnuna.
Af þeim sem í sumar sögðust oftast keyra til og frá vinnu voru á milli 50-51 prósent sem sögðust vilja ferðast oftast á þann hátt, en rúmlega 21 prósent bílstjóra væru helst til í að ferðast á reiðhjóli, tæplega 14 prósent fótgangandi og um 6 prósent væru frekar til í að nýta strætó.
Samkvæmt könnuninni væri rúmur fjórðungur allra á vinnumarkaði á höfuðborgarsvæðinu til í að ferðast á reiðhjóli, eða 26,7 prósent, sem er langt umfram þann fjölda sem sagðist oftast hjóla til og frá vinnu. Tæp 20 prósent segjast svo helst vilja labba.
Yngra fólk vill síður keyra til og frá vinnu
Þegar óskaferðamáti fólks til og frá vinnu er skoðaður með tilliti til aldurs svarenda kemur í ljós að þeir að því eldri sem svarendur eru, þeim mun líklegri eru þeir til að vilja helst ferðast á einkabíl sem bílstjórar. Af íbúum sextíu ára og eldri vilja rúm 55 prósent helst ferðast á einkabíl og er það eini aldurshópurinn þar sem meirihluti svarenda kýs helst einkabílinn.
Lægst er hlutfallið hjá þeim yngstu, en einungis rúm 28 prósent íbúa sem eru á aldrinum 18-29 ára segjast helst vilja keyra til og frá vinnu, 31,7 prósent þeirra sem eru fertugsaldri, 34,2 prósent íbúa á fimmtugsaldri og 42,2 prósent þeirra sem eru á sextugsaldri. Tekið skal fram að samkvæmt niðurstöðunum er þó ekki tölfræðilega marktækur munur á milli aldurshópa hvað þetta varðar.
Spurningarnar voru einungis lagðar fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem eru á vinnumarkaði, 18 ára og eldri. Svarendur í öllum mælingunum þremur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Nýjasta mælingin fór fram dagana 19. til 26. júní 2020 og voru svarendur 397. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá.