Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á blaðamannafundi Almannavarna í dag að hann hefði verið bjartsýnn í gær að verið væri að ná utan um faraldurinn. „Sú bjartsýna spá mín hefur ekki ræst.“ Hann skoðar nú að leggja það til við heilbrigðisráðherra að herða takmarkanir.
Fram kom í fréttum í morgun að sjötíu og fimm einstaklingar hefðu greinst með kórónuveirusmit innanlands í gær og var um helmingur í sóttkví við greiningu. Undanfarna fjóra daga hafa því 128 smit greinst innanlands.
Sóttvarnalæknir sagði á fundinum að þessi vöxtur væri þó ekki óvæntur þar sem talað hefði verið um að slíkar bylgjur myndu koma upp af og til. „Það hefur berlega komið í ljós að það þarf lítið til til þess að veiran breiði úr sér – og breiðist milli einstaklinga.“
Að leita að sökudólgi mun ekki skila neinu
Ástæður fyrir þessari bylgju, eru að hans mati, vafalaust margar. „Í grunninn er hægt að segja að allar þær tilslakanir sem við höfum verið að grípa til, bæði tilslakanir í sóttvörnum hjá okkur sem einstaklingum og opinberar tilslakanir sem hafa verið í gangi hafa vafalaust leitt til þess að veiran á hægar um vik til að dreifa sér því í grunninn vitum við hvernig þessi veira berst á milli manna.“
Þórólfur telur rétt að vara við því núna að fara að leita að sökudólgi – þetta sé það sem aðrar þjóðir eru einnig að ganga í gegnum. Jafnvel sé von á annarri bylgju eftir að niðurlögum þessarar hefur verið ráðið.
„Það að fara að leita að einhverjum sökudólgi mun ekki skila okkur neinu í þeirri baráttu sem við þurfum að heyja núna á næstunni.
Við þurfum að minna okkur á það að við höfum staðið í þessu saman til þessa og það hefur skilað okkur góðum árangri, til dæmis fyrr í vetur. Það mun skila okkur góðum árangri áfram,“ sagði sóttvarnalæknir.
Jákvætt að enginn sé alvarlega veikur
Hið jákvæða á þessum tímapunkti, að hans sögn, er að enginn sé alvarlega veikur á sjúkrahúsi en hann minnti á að þeir sem væru að veikjast núna væru yngra fólk sem veikist að jafnaði ekki eins og eldri einstaklingar eða einstaklingar með undirliggjandi vandamál.
„Það er alveg eins líklegt að mikil útbreiðsla meðal yngra fólks geti síðan á endanum smitast yfir í eldri einstaklinga sem gætu þá veikst alvarlega,“ sagði hann.
Þá minnti hann á í þessu samhengi að alvarleg veikindi kæmu yfirleitt ekki fram fyrr en um viku eftir byrjun einkenna, þannig að „við gætum eftir að sjá alvarleg einkenni á næstu dögum eða næstu vikum“.