Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að það sé til umhugsunar hvort að Vinstri gær séu „stjórntæk yfir höfuð í ríkisstjórnarsamstarfi.“ Þetta sagði hún í Silfrinu í dag.
Þar var Sigríður að ræða um brotthvarf Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur úr Vinstri grænum og benti á að í bæði skiptin sem að flokkurinn hefði setið í ríkisstjórn þá hefðu þingmenn hans sagt sig úr flokknum eða þingflokknum. Í fyrra skiptið sem Vinstri græn mynduðu ríkisstjórn, með Samfylkingunni eftir kosningarnar 2009, þá hefðu fimm þingmenn horfið á braut á meðan að á kjörtímabilinu sem lauk 2013 stóð. Nú hafi tveir þingmenn, Rósa Björk og Andrés Ingi Jónsson, sagt sig úr Vinstri grænum á yfirstandandi kjörtímabili, en hvorugt þeirra studdi ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk þegar til þess var stofnað eftir kosningarnar 2017, og kusu gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Sigríður sagði að innan Sjálfstæðisflokksins hafi verið horft á það„í forundran“ frá upphafi að tveir þingmenn samstarfsflokks styddu ekki ríkisstjórnina. Það hafi líka komið þingmönnum Sjálfstæðisflokks á óvart hversu mikil áhrif andstöðuöflin innan þingflokks Vinstri grænna hefðu haft þar þrátt fyrir þessa afstöðu, og einhverskonar stjórn á málum.
Að hennar mati ætti ásýnd Vinstri grænna í þinginu að vera áhyggjuefni fyrir flokkinn.
Útlendingamálin erfið
Rósa Björk sendi frá sér yfirlýsingu 17. september síðastliðinn þar sem hún greindi frá því að þann hefðu hún átt fund með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, og tilkynnt henni um úrsögn sína úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og úr hreyfingunni. „Nýlegir atburðir er varða brottvísun stjórnvalda á barnafjölskyldu sem hefur beðið eftir lausn sinna mála í 25 mánuði og viðbrögð ríkisstjórnar sem VG er í forystu fyrir í því máli, urðu til þess að ég finn endanlega að ég á ekki lengur samleið með þingflokki VG.“
Rósa var einnig gestur í Silfrinu í dag og sagði þar að útlendingamál hefðu reynst Vinstri grænum sem hreyfingu mjög erfið. „Það er bara búið að taka ákvörðum um það að fylgja harðari línu í þessum málaflokki en áður, og við því get ég ekki setið undir.“
Rósa Björk er annar þingmaður Vinstri grænna sem segir sig úr þingflokknum á þessu kjörtímabili. Í lok nóvember í fyrra sagði Andrés Ingi sig úr honum og greindi frá því að hann myndi starfa sem óháður þingmaður út kjörtímabilið.