Alls greindust 38 með kórónuveirusmit innanlands í gær. Það er umtalsvert færri en greindust á föstudag, þegar 75 smit voru greind. Undanfarna fimm daga hafa 166 smit greinst innanlands. Þetta kemur fram á vefnum covid.is.
Alls voru rúmlega 2.395 sýni tekin í landinu í gær, sem er mun færri en í fyrradag þegar þau voru 3.600.
55 prósent þeirra sem voru greindir sýktir í gær voru í sóttkví við greiningu. Almannavarnir hafa boðað til blaðamannafundar vegna ástandsins klukkan 14 í dag.
Alls eru 1.290 einstaklingar í sóttkví og 1.806 til viðbótar í skimunarsóttkví eftir að hafa komið hingað til lands undanfarna daga. 215 einstaklingur er nú með virkt smit innanlands og tveir eru nú á sjúkrahúsi vegna COVID-19.
Smit á skemmtistöðum
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra féllst á tillögu sóttvarnalæknis í fyrradag um að loka skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu, tímabundið í fjóra daga frá 18. til 21. september. Þetta var gert til að sporna við útbreiðslu COVID-19.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að eigendur einhverra skemmtistaða, þar sem smitaðir einstaklingar hefðu verið á ferð, hefðu eindregið óskað eftir því að staðir þeirra yrðu ekki nafngreindir opinberlega.
Víðir sagði ennfremur að yfirvöld teldu sig ekki hafa heimild til þess að greina frá nöfnum staðanna, en hvatti eigendur skemmtistaðanna sem um ræðir til þess að sýna samfélagslega ábyrgð og láta viðskiptavini sína vita. Hann sagði að hann teldi að enginn myndi tapa á því.
Í kjölfarið birti veitingastaðurinn Brewdog tilkynningu á Facebook þar sem viðskiptavinir hans sem heimsóttu staðinn föstudaginn 11. september eða laugardaginn 12. september, til þess að fara í skimun, en í ljós hefur komið að einn starfsmaður sem var að vinna þá helgina hefur greinst með COVID-19.