Starfsmaður útvarpsstöðvarinnar Rásar 2, sem rekin er af RÚV, greindist með COVID-19 smit í gærkvöldi. Vegna þessa eru sex starfsmenn RÚV og einhverjir viðmælendur sem komu í viðtal hjá starfsmanninum, komnir í sóttkví.
Á meðal þeirra sem komu í viðtal hjá viðkomandi, og er kominn í sóttkví, er Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Vegna þessa verður Víðir ekki á fundi Almannavarna sem hefst klukkan 14. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur sent starfsfólki RÚV tölvupóst vegna málsins þar sem hann greinir frá meginatriðum þess. Í póstinum kemur fram að unnið sé að smitrakningu og mati á næstu skrefum í samvinnu við smitrakningarteymi almannavarna. Uppruni smitsins sé ekki ljós sem stendur og ekki sé talið að tenging sé á milli þess og smits hjá öðrum starfsmanni Rásar 2, sem kom upp í síðustu viku.
Alls greindust 38 með kórónuveirusmit innanlands í gær. Það er umtalsvert færri en greindust á föstudag, þegar 75 smit voru greind. Undanfarna fimm daga hafa 166 smit greinst innanlands. Þetta kemur fram á vefnum covid.is.
Alls voru rúmlega 2.395 sýni tekin í landinu í gær, sem er mun færri en í fyrradag þegar þau voru 3.600.
55 prósent þeirra sem voru greindir sýktir í gær voru í sóttkví við greiningu.