Meðal þeirra ráðstafana sem stjórnvöld gripu til í kjölfar COVID-19 faraldursins var að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts tímabundið úr 60 prósentum upp í 100 prósent vegna ofangreinds. Sú hækkun gildir sem stendur frá 1. mars og út þetta ár og það hefur skilað þessari miklu aukningu á endurgreiðslum.
Þetta felur í sér að virðisaukaskattur af vinnu iðnaðarmanna er í raun afnumin tímabundið, og hún verður þar af leiðandi mun ódýrari að kaupa án þess að það hafi áhrif á tekjur iðnaðarmanna. Sá aðili sem gefur eftir tekjurnar er ríkissjóður.
Hann hefur endurgreitt alls ríflega tólf milljarða króna vegna endurgreiðslubeiðna á virðisaukaskatti vegna nýbyggingar eða endurbóta á íbúðarhúsnæði, bílaviðgerða, heimilishjálpar eða -þrifa það sem af er ári.
Fjórfaldast milli ára
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að frá því í janúar 2020 hafi borist rúmlega 18.500 endurgreiðslubeiðnir vegna allra endurgreiðsluþátta. Í fyrra hafi 6.340 endurgreiðslubeiðnir borist Skattinum frá 1. janúar út ágúst.
Ef litið var til þrengra tímabils, þá hafði Skattinum borist rúmlega 14 þúsund umsóknir um endurgreiðslur af ýmsu tagi frá því í maí. Í fyrra nam fjöldi endurgreiðslubeiðna frá maí til og með ágúst um 3.500. Fjöldi umsókna hafði því fjórfaldast á milli ára á tímabilinu. Allt bendir til þess að sú aukning hafi haldið áfram í september.
Umsóknum frá einstaklingum vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði hefur fjölgað mest, og eru kostnaðarsamastar. Í ágústlok hafði Skattinum borist um 12 þúsund slíkar umsóknir frá upphafi árs, og þar af um átta þúsund frá 1. maí síðastliðnum. Vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu húsnæðis hafa Skattinum nú borist rúmlega eitt þúsund umsóknir. Vegna bílaviðgerða hafa borist um 4.900 endurgreiðsluumsóknir.
Vert er að taka fram að endurgreiðslubeiðni getur verið vegna verks sem framkvæmt var á síðasta ári, þótt hún berist í ár. Einungis þau verk sem framkvæmd eru eftir 1. mars njóta 100 prósent endurgreiðslu.
Vill að úrræðið sé framlengt
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í viðtali við Kjarnann sem birtist í síðustu viku að átakið, sem gengur alla jafna undir nafninu „Allir vinna“, hafi verið einstaklega vel heppnað. „Það dregur úr svartri atvinnustarfsemi sem er mjög jákvætt og skapar hvata til umsvifa. Þetta hefur sannarlega skilað góðum árangri, við finnum það á samtölum við okkar félagsmenn að það er mjög mikið að gera – það er mjög mikið að gera til áramóta, þegar úrræðið fellur úr gildi.“
Hann sagði það blasa við að það yrði að framlengja úrræði „að minnsta kosti út næsta ár ef vel á að vera.“
Sigurður sagðist þó hafa skilning á því að stjórnvöld hafi ákveðið að hafa úrræðið svona tímabundið til að byrja með, til að skapa rétta hvata til að ráðast í framkvæmdir.