Fjölmargir fjölmiðlar víða um heim hafa í gær og í dag birt fréttir sem eru afrakstur meira en árslangrar rannsóknarvinnu og varpa ljósi á það hvernig margir af stærstu bönkum Vesturlanda hafa verið að færa peninga fyrir ýmsa vafasama aðila og þiggja fyrir það þóknun, án þess að bregðast við grunsemdum um peningaþvætti, svik og glæpastarfsemi með afdráttarlausum hætti.
Um er að ræða umfjallanir upp úr meira en 2.600 leynilegum skjölum sem lekið var til bandaríska vefmiðilsins BuzzFeed í fyrra frá FinCEN, löggæslustofnun innan fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna. BuzzFeed deildi gögnunum með ICIJ, alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, sem deildi þeim áfram til um það bil 400 blaðamanna af um 110 fréttamiðlum í 88 ríkjum til úrvinnslu og greiningar.
Í ljós hefur komið að stórir bankar á borð við JPMorgan, HSBC, Standard Chartered, Deutsche Bank, Barcleys og Bank of New York Mellon héldu áfram að hagnast á því að færa peninga fyrir vafasama aðila, jafnvel eftir að bandarísk yfirvöld létu suma þeirra sæta sektum fyrir að sinna því ekki að hindra flæði peninga með vafasaman uppruna um reikninga sína.
Hvaða skjöl eru þetta?
Skjölin sem um ræðir eru að mestu leyti skýrslur um grunsamlegar millifærslur í bandaríkjadölum sem bankar hafa sent til FinCEN, en þessar skýrslur eru algjört trúnaðarmál. Alls eru fjölmiðlar með 2.121 skýrslu í fórum sínum.
Regluverðir banka þurfa að útbúa slíkar skýrslur þegar þeir sjá einhverjar millifærslur sem gefa til kynna að mögulega sé þar á ferðinni peningaþvætti eða eitthvað annað misjafnt.
Grunsemdarskýrslurnar, sem kallaðar eru Suspicious Activity Reports (SARs) á ensku, eru ekki ásakanir eða sannanir um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað, heldur ábendingar bankanna til bandarískra yfirvalda um óvenjulegar fjármagnshreyfingar og að mögulega sé eitthvað saknæmt.
Sem áður segir eru fleiri en 2.100 slíkar tilkynningar í þeim gögnum sem BuzzFeed komst yfir, flestar frá árunum 2011 til 2017, og í heild nemur andvirði millifærslnanna sem bankarnir vöktu athygli á yfir tveimur billjónum (tvö þúsund milljörðum) bandaríkjadala.
Þessi gagnaleki er þó einungis sagður dropi í hafið, en samkvæmt umfjöllun á vef ICIJ fékk FinCEN alls tólf milljónir tilkynninga frá fjármálafyrirtækjum bara á árunum 2011 til 2017.
Samkvæmt ítarlegri umfjöllun BuzzFeed voru yfir tvær milljónir slíkra tilkynninga sendar inn til FinCEN bara á síðasta ári og margar þeirra voru aldrei lesnar, samkvæmt því sem miðillinn hefur eftir heimildarmanni sínum.
Eftirlitskerfið er því veikt á báðum stöðum, bankarnir sinna kannski lögbundinni tilkynningarskyldu sinni, en gera það stundum seint og aðhafast lítið meira en að senda inn lögbundna tilkynningu sem yfirvöld gera lítið í að bregðast við. Á meðan er umfang grunsamlegra millifærslna á heimsvísu gríðarlegt.
Nokkrir bankar skera sig úr í gagnalekanum, samkvæmt samantekt ICIJ á innihaldi FinCEN-skjalanna, en gögnin sýna að Deutsche Bank lét bandarísk yfirvöld vita af millifærslum sem alls námu rúmlega 1,3 billjónum bandaríkjadala og JPMorgan flaggaði millifærslur að andvirði 514 milljarða bandaríkjadala. Standard Chartered lét vita af millifærslum sem alls námu 166 milljörðum bandaríkjadala og Bank of New York Mellon átti tilkynningar um millifærslur sem alls námu 21 milljarði bandaríkjadala. Aðrir bankar tilkynntu minna.
Hvað hefur komið í ljós?
BuzzFeed greindi frá því að æðstu stjórnendur Deutsche Bank hefðu árum saman verið meðvitaðir um verulega ágalla varðandi varnir gegn peningaþvætti hjá bankanum, en lítið aðhafst, þrátt fyrir að glæpaklíkur, hryðjuverkahópar og eiturlyfjasalar væru að hagnýta sér reikninga bankans. Fram kemur að bankinn hafi haldið áfram að millifæra fyrir vafasama aðila eftir að peningaþvættisskandalar voru byrjaðir að skekja bankann og búið var að lofa bót og betrun og greiða háar sáttagreiðslur.
Þýski miðillinn Deutsche Welle fjallar líka ítarlega um þátt Deutsche Bank.
Sagt frá því á BBC og víðar að HSBC, stærsti banki Bretlands, hafi vitað af því að verið væri að flytja tugmilljónir dollara um reikninga bankans í tengslum við píramídasvindl á árunum 2013 og 2014, en leyft því að viðgangast.
BBC segir einnig frá því að Arkady Rotenberg, rússneskur milljarðamæringur og æskuvinur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, virðist hafa notað Barclays-bankann í Lundúnum til að komast framhjá fjármagnshöftum sem bandarísk stjórnvöld settu á hann og aðra sem þóttu vera í innsta hring rússneskra stjórnvalda árið 2014.
Á vef ICIJ er farið yfir ýmsa vafasama leikendur sem bankarnir flögguðu. Þeirra á meðal er Paul Manafort, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Sumir bankar eru sagðir hafa haldið áfram að afgreiða millifærslur honum tengdar eftir að fjallað var um glæpsamlega háttsemi hans í fjölmiðlum.
Aftenposten í Noregi var einn þeirra fjölmiðla sem tók þátt í rannsókn ICIJ og sagði frá því í gær að alls hefðu bankar tilkynnt FinCEF um millifærslur til eða frá norska ríkisbankanum DNB sem næmu um 1 milljarði norskra króna, eða tæpum 15 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Samkvæmt frétt miðilsins í dag er norska efnahagsbrotadeildin Økokrim búin að setja sig í samband við bandarísk yfirvöld vegna gagnalekans.
Þessar fréttir og fleiri, sem unnar hafa verið upp úr gagnalekanum frá FinCEF, hafa valdið því að hlutabréfaverð ýmissa banka hefur fallið töluvert í dag og fór hlutabréfaverð HSBC meðal annars lægra en það hefur verið undanfarin 25 ár.