Fjárfestingarfélagið Novator hefur samþykkt kauptilboð í pólska fjarskiptafyrirtækið Play frá franska fjarskiptafyrirtækinu Iliad Group. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjárfestingarfélaginu fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni kom Novator að stofnun Play árið 2005 í gegnum eignarhaldsfélagið P4. Novator eignaðist svo meirihluta í félaginu árið 2007, en tíu árum seinna var það skráð á markað í kauphöllinni í Varsjá. Í dag er Play stærsta fjarskiptafyrirtæki Póllands með yfir 15 milljónir viðskiptavina og 28 prósenta markaðshlutdeild.
Novator átti fimmtungshlut í pólska fjarskiptafyrirtækinu, en samkvæmt tilkynningunni er hluturinn metinn á 440 milljónir evra, sem samsvarar 71 milljarði íslenskra króna, ef miðað er við lokagengi félagsins í pólsku kauphöllinni í gær. Kaupverðið var 39 prósent hærra en lokagengið.
Novator er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og er umsvifamesta fjárfestingarfélagið sem er í eigu Íslendinga. Síðasta rúman áratug hefur hann, ásamt samstarfsmönnum hans í félaginu, Birgi Má Ragnarssyni og Andra Sveinssyni, farið mikinn í fjárfestingum erlendis.