Öll sex stjórnmálaöflin sem eiga sæti í bæjarstjórn Akureyrar ætla að mynda saman nýjan meirihluta í bænum, en breytingarnar verða kynntar á blaðamannafundi í menningarhúsinu Hofi í hádeginu.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var þessi ákvörðun tekin vegna erfiðleika í rekstri bæjarins vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Viðræður flokkanna um þetta fyrirkomulag hafa staðið yfir undanfarna daga.
Samstarfið í bæjarstjórn Akureyrarbæjar er sagt hafa verið gott þvert á flokka og því talið skynsamlegt að mynda samstíga meirihluta allra flokka til þess að takast á við það verkefni að vinna sveitarfélagið út úr rekstrarvandanum sem faraldurinn hefur valdið.
Sex manna meirihluti Samfylkingar, L-lista og Framsóknarflokks hefur verið starfandi frá síðustu sveitarstjórnarkosningum, en hvert framboð hefur tvo fulltrúa í bæjarstjórninni.
Sjálfstæðisflokkur var stærsti flokkurinn eftir kosningar og hefur þrjá fulltrúa í bæjarstjórn, en sjálfstæðismenn hafa verið í minnihluta ásamt einum fulltrúa frá bæði Vinstri grænum og Miðflokknum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans munu fulltrúar þeirra flokka sem nú eru í minnihluta taka við formennsku í þeim nefndum bæjarins sem í dag er stýrt af öðrum fulltrúum meirihlutaflokkanna en kjörnum fulltrúum.