Horfur fyrir fjármálastöðugleika hafa versnað frá byrjun júlí og nú bendir flest til þess að „baráttan við COVID-19-farsóttina verði langdregnari en vonir voru bundnar við á vormánuðum.“
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabanki Íslands birti í dag.
Þar segir að þessi staða muni hafa neikvæð áhrif á heimili og fyrirtæki og þar með útlánagæði í fjármálakerfinu. Aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans hafi meðal annars miðað að því að milda höggið og auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við afleiðingar faraldursins með lægri fjármagnskostnaði og greiðara aðgengi að fjármagni.
Þar sé um að ræða aðgerðir eins og greiðsluhlé, hlutabótaleiðina og lækkun vaxta, sem hafi allar leitt til þess að áhrifa faraldursins gætir enn að takmörkuðu leyti hjá heimilum. Líflegur fasteignamarkaður með áframhaldandi verðhækkunum og kröftugri einkaneysla en búist var við sýni það. „Viðbúið er þó að atvinnuleysi aukist enn frekar á næstu mánuðum. Algert tekjufall blasir við í ferðaþjónustu og smitáhrif yfir á tengdar greinar, svo sem útleigu atvinnuhúsnæðis, eru umtalsverð. Þrengt hefur að aðgengi fyrirtækja að fjármagni vegna skertrar greiðslugetu og aukinnar óvissu. Aukin skuldsetning ein og sér mun ekki leysa vanda þeirra fyrirtækja sem verst eru stödd. Veruleg hætta er á að fjöldi fyrirtækja leiti eftir greiðsluskjóli eða fari í gjaldþrot á næstu mánuðum.“
Skuldir aukist um rúmlega milljarð á dag
Í Fjármálastöðugleikaritinu segir að áætlað sé að landsframleiðsla helstu viðskiptalanda Íslands hafi dregist saman um tæp þrettán prósent á öðrum ársfjórðungi ársins 2020. Það er mesti samdráttur á einum ársfjórðungi frá því að mælingar á slíkum hófust eftir seinni heimsstyrjöldina á fimmta áratug síðustu aldar. „Efnahagshorfur fyrir næstu fjórðunga hafa einnig versnað samhliða fjölgun smita á heimsvísu eftir að losað var að hluta um þær sóttvarnaraðgerðir sem innleiddar voru á vormánuðum. Leiðandi vísbendingar um efnahagsumsvif gefa til kynna að umsvif hafi þó aukist í helstu iðnríkjum samhliða slökun sóttvarnaraðgerða.“
Íslenska ríkið hefur, líkt og mörg önnur ríki, aukið verulega á skuldsetningu sína til að mæta þessari stöðu. Alls jukust skuldir ríkissjóðs um 280 milljarða króna á fyrstu átta mánuðum ársins 2020. Það þýðir að skuldirnar hafa aukist um rúmlega 1,1 milljarð króna á hverjum degi að á því tímabili að meðaltali.
Erlendir færa fjármuni út
Hrein nýfjárfesting fyrir erlent fjármagn var neikvæð um 12 milljarða króna frá júní til ágústloka. Útflæðið stafar fyrst og fremst af sölu erlendra aðila á ríkisbréfum fyrir 15 milljarða króna.
Í Fjármálastöðugleika segir að fjárhæð aflandskróna hafi lækkað eilítið á vormánuðum en hafi síðan staðið í stað síðan og nemi nú um 50 milljörðum króna. „Í lok júlí áttu erlendir aðilar 94 ma.kr. í ríkisbréfum. Erlendir eigendur ríkisbréfa eru nær einvörðungu sjóðastýringarfyrirtæki og er eignarhaldið auk þess verulega samþjappað, yfir 90% eru í eigu fjögurra aðila.“
Á móti hefur fjármagnsútflæði innlendra aðila verið takmarkað, og skiptir þar mestu að lífeyrissjóðir samþykktu að skipta helst ekki krónum í gjaldeyri um nokkurra mánaða skeið til að verja krónuna frá því að falla of mikið. Á síðustu þremur árum námu gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna að meðaltali um 100 milljörðum króna á ári. Á fyrri árshelmingi þessa árs námu kaupin hins vegar um 30 milljörðum króna, þar af um sjö milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Sjóðirnir drógu þannig úr gjaldeyriskaupum um nærri ¾ hluta milli fjórðunga á öðrum ársfjórðungi.
Í Fjármálastöðugleika segir þó að bráðabirgðatölur fyrir júlí og ágúst sýni aukningu á milli fjórðunga á þriðja ársfjórðungi. „Mikil aukning í innlendum krónuinnstæðum sjóðanna, um 39 ma.kr. frá apríl til loka ágúst, bendir til þess að sjóðirnir hafi dregið almennt úr fjárfestingu vegna óvissu tengdrar farsóttinni Auk þess hefur eftirspurn eftir íbúðalánum sjóðanna minnkað. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf þeirra hefur því aukist nokkuð síðustu mánuði. Miðað við fjárfestingaráform lífeyrissjóðanna er ekki ólíklegt að erlend fjárfesting þeirra vaxi á ný á næstu misserum en sjóðirnir ákváðu að framlengja ekki takmarkanir á gjaldeyriskaupum til nýfjárfestingar erlendis.“