ASÍ telur forsendur lífskjarasamningsins, sem var undirritaður í fyrra, hafa staðist og telja ekki tilefni til að segja honum upp á þessum tímapunkti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sambandinu.
í tilkynningunni er vitnað í Drífu Snædal, forseta ASÍ, þar sem hún segir verkalýðshreyfinguna munu sýna ábyrgð á erfiðum tímum og hafa boðið frið og fyrirsjáanleika á vinnumarkaði.
Þrjár forsendur að baki lífskjarasamningsins voru til skoðunar hjá ASÍ, en það var aukning kaupmáttar, lækkun vaxta og fyrirheit stjórnvalda um að vinda ofan af verðtryggingunni.
Samkvæmt fréttatilkynningu ASÍ héldu allar ofangreindar forsendur, og vísaði sambandið í 4,8 prósenta kaupmáttaraukningu og 3,5 prósentustiga vaxtalækkun það sem af er samningstímanum.
Alþýðusambandið sagði þó stjórnvöld ekki hafa staðist ákvæðið um bann á 40 ára verðtryggðum lánum, en bætti þó við að frumvarp sem tekur á því máli verða lagt fram á komandi haustþingi. ASÍ telur framlagningu frumvarpsins fela í sér efndir á yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra.