Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, þingmenn Pírata, munu ekki gefa kost á sér í komandi alþingiskosningum, sem fara fram eftir eitt ár. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Píratar hafa sent frá sér.
Þar segir enn fremur að þrátt fyrir að komandi vetur verði þeirra síðasti á þingi munu þeir áfram starfa innan Pírata. Ákvarðanir þeirra eru teknar meðal annars vegna þess að hvorugum hugnast að ílengjast um of á þingi, en jafnframt að umbótamálum þurfi ekki síður að sinna utan veggja Alþingis.
Í tilkynningunni er haft eftir Helga og Smára segjast þeir hvorugir hafa ákveðið hvað taki við að þingmennsku lokinni en ótal margt komi til greina. Þeir hafi báðir breitt áhugasvið og efist því ekki um að þeir finni sér áhugaverð viðfangsefni. Þeir eigi þó óneitanlega eftir að sakna þingflokksins.