Ný heildarlög um fæðingarorlof mun skerða frelsi fjölskyldna að mati Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. „Með þessum tillögum er búið að skerða frelsi fjölskyldunnar algjörlega og draga úr möguleikum hverrar fjölskyldu til að bregðast við aðstæðum hverju sinni svo hægt sé að mæta þörfum og hag barnsins,“ ritar Vilhjálmur í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaði dagsins í dag og ber yfirskriftina Stöndum vörð um fæðingarorlofskerfið.
Vilhjálmur segir í grein sinni að fjölskyldur barna séu best til þess fallnar að meta hvað sé barni fyrir bestu. „Það er því með ólíkindum að starfshópur og í framhaldi félags- og barnamálaráðherra hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé barni fyrir bestu að þrengja tímabil töku fæðingarorlofs niður í 18 mánuði, skipta mánuðum jafnt á milli foreldra, sex og sex mánuði, og hafa aðeins einn mánuð af tólf framseljanlegan á milli foreldra, ritar Vilhjálmur.
Hann segir að dæmi frá hinum Norðurlöndunum sýni að þrengra fyrirkomulag bitni helst á tekjulægri fjölskyldum. Tillögurnar munu að hans mati ekki auka líkur á að barn fái fyrstu 12 mánuði með foreldri því að hætt sé við að hærra hlutfall réttindanna falli niður ónýtt vegna þess hve margir mánuðir eru bundnir á hvort foreldri fyrir sig.
Stefnt að jafnri skiptingu orlofsréttar
Ný drög að heildarlögum um fæðingarorlof var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni. Þar er lagt til að það tímabil sem foreldrar hafa til að taka fæðingarorlof verði stytt úr tveimur árum í eitt og hálft ár.
Þá er einnig ráðgert að lengja fæðingarorlofið um tvo mánuði, úr tíu mánuðum í tólf, og að skipting orlofsmánaða verði sem jöfnust. Í dag fær hvort foreldri fjóra mánuði í orlof auk þess sem foreldrar hafa tvo mánuði til að skipta á milli sín. Í nýju lögunum fær hvort foreldri sex mánaða orlof en þeim gefst kostur á að færa einn orlofsmánuð sín á milli.
Akið valfrelsi sé afturför í jafnréttismálum
Meðal þeirra sem fjallað hafa um frumvarpið á opinberum vettvangi er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Í færslu á Facebook síðu sinni fagnar Sonja Ýr nýju framvarpi og telur það „löngu tímabært“ að fæðingarorlof verði skipt jafnar milli foreldra. Hún segir að á Norðurlöndunum sýni reynslan að feður taki eingöngu þann tíma sem eyrnamerktur er þeim og mæður rest.
„Þetta er meðal þeirra atriði sem hefur veruleg áhrif á launamun kynjanna og starfsþróunarmöguleika kvenna. Það verður ekki leyst ekki öðruvísi en að stuðlað sé að jafnari ábyrgð mæðra og feðra á umönnun barna. Það mun líka hafa áhrif á þátttöku feðra í uppeldi barna til framtíðar, tengslum barna við feður sína, jafnrétti á heimilum og vinnumarkaði og jafnvel skilnaðartíðni ásamt vilja mæðra til að eignast fleiri börn,“ skrifar Sonja Ýr um áhrif breytinganna.
Þá segir Sonja tillögurnar byggja á ítarlegri yfirferð rannsókna, samráði við sérfræðinga og mati á áhrifum. Það sé því ekki hending ein að lagt sé til þessi skipting mánaða. „Meiri sveigjanleiki eða valfrelsi myndi vera afturför í jafnréttismálum en líka varðandi möguleika barna til að njóta umönnunar föður í sama mæli og móður í fæðingarorlofi og til framtíðar. Hér haldast því í hendur hagsmunir barna og foreldra,“ segir Sonja.