Jafnari skipting orlofs stórt skref til jafnréttis á vinnumarkaði

Ef ætlunin er að loka launabili kynjanna er nýtt frumvarp um breytingar á fæðingarorlofinu skref í rétta átt og í rauninni alveg ótrúlega stórt skref, að mati Herdísar Steingrímsdóttur hagfræðings við CBS í Kaupmannahöfn.

Til stendur að eyrnamerkja hvoru foreldri sex mánaða fæðingarorlof hér á landi. Ljóst er að ekki eru allir sammála um ágæti þess.
Til stendur að eyrnamerkja hvoru foreldri sex mánaða fæðingarorlof hér á landi. Ljóst er að ekki eru allir sammála um ágæti þess.
Auglýsing

Umsögnum um drög að breytingum á lögum fæðingarorlof hefur rignt inn í samráðsgátt stjórnvalda frá því að þau birtust þar í síðustu viku. Yfir hundrað manns hafa þegar látið skoðun sína á frumvarpsdrögunum í ljós og eru þau langflest á þeirri skoðun að þær breytingar sem felast í frumvarpinu varðandi jafna skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra séu ekki af hinu góða.

Stóru línurnar í framkominni gagnrýni eru þær að með því að eyrnamerkja hvoru foreldri sex mánaða fæðingarorlof sé ekki verið að horfa til hagsmuna barnsins. Þá sé einnig verið að skerða frelsi foreldra til þess að ákveða sjálf hvernig þeim hentar best að taka orlofið og ýmsir benda á að á meðan þak fæðingarorlofsgreiðslna sé enn 600.000 krónur (og aldrei meira en 80 prósent af heildarlaunum) muni það reynast dýrt, jafnvel ómögulegt, fyrir margar fjölskyldur að tekjuhærra foreldrið taki allt það orlof sem því er eyrnamerkt.

Frumvarpið verður væntanlega lagt fram á Alþingi í vetur og hefur Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra sagt að hann telji það mikið framfaraskref. Ljóst er að ekki allir deila þeirri skoðun og að um útfærsluna verður deilt í þingsölum.

Af umræðunni undanfarna daga má raunar sjá að hér er komið eitt af þeim sjaldgæfu málum þar sem þingmenn Pírata og Miðflokks gerast skoðanabræður, en þær Halldóra Mogensen Pírati og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum hafa báðar sagt að í frumvarpinu felist forræðishyggja og að það sé ekki börnum né fjölskyldum fyrir bestu að sex mánuðir verði eyrnamerktir hvoru foreldri. 

Auglýsing

Miðflokkurinn hyggst leggja fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að foreldrar hafi fullt frelsi til að ráðstafa 12 mánaða fæðingarorlofi sín á milli eins og þeir helst vilja, en samkvæmt frumvarpsdrögunum er einungis hægt að ráðstafa einum mánuði á milli foreldra, óski þeir þess.

Líklegt til að hafa jákvæð áhrif á kynjajafnrétti

Herdís Steingrímsdóttir, dósent í hagfræði við Copenhagen Business School, viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, ræddi málið við Kjarnann. Hún hefur skoðað fæðingarorlofsmál í rannsóknum sínum og rannsakaði meðal annars áhrif feðraorlofsins á Íslandi á skilnaðartíðni. Í grein hennar og Örnu Olafsson um málið, sem birtist í The Economic Journal í upphafi þessa árs, kom í ljós að fylgnisamband var á milli töku feðraorlofs og lækkandi skilnaðartíðni.

Herdís segir við blaðamann að það séu þó ætíð skiptar skoðanir á því hvort það eigi að vera að eyrnamerkja einhvern hluta orlofsins hvoru foreldri, eða ekki. Jöfn skipting er þó að hennar mati líkleg til þess að hafa jákvæða útkomu fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Herdís Steingrímsdóttir, dósent í hagfræði við CBS.

„Það er alveg skýrt þegar feðraorlofið er fyrst kynnt til sögunnar að ætlunin er bæði að tryggja að börn geti átt samvistir með báðum foreldrum en líka til þess að hafa áhrif á vinnumarkað og launamun á vinnumarkaði,“ segir Herdís.

„Ef maður hugsar um þau markmið þá er þetta náttúrlega bara mjög jákvætt og ótrúlega stórt skref í rauninni að það sé verið að setja jafnt eyrnamerkt orlof á feður og mæður og við sjáum það í nýlegum rannsóknum að það sem er eftir af launamuni kynjanna er útskýrður að mjög miklu leyti af því að konur vinna minna eftir að þær eignast börn og verja meiri tíma í umönnun og að sinna fjölskyldu og heimili,“ bætir hún við.

Hún segir rannsóknir sýna að konur og karlar hafi mjög svipuð laun þar til þau fara að eignast börn. „Þá sjáum við að það fer að skilja á milli. Ef ætlunin er að loka þessu launabili er augljóst að það verður að jafna líka hlutverkin heima við,“ segir Herdís.

Það er jafnréttishliðin á teningnum. „Svo er það hin hliðin sem þeir sem vilja ekki eyrnamerkja orlof halda mest á lofti, að foreldrar eigi bara að fá að ákveða þetta sjálfir og fá að velja þá leið sem hentar þeim best. Það er sú leið sem hefur verið farin í Danmörku, en hér sjáum við líka að feður nota mjög lítinn hluta af fæðingarorlofinu. Þetta breytist mjög hægt án þess að það sé gripið inn í með að eyrnamerkja hluta af fæðingarorlofinu.“

Hún segir að Danir verði væntanlega að fara að ráðast í það að eyrnamerkja báðum foreldrum einhvern hluta fæðingarorlofsins á næstunni, enda kveði nýleg Evrópulöggjöf á um að allavega tveir mánuðir verði að vera eyrnamerktir hvoru foreldri. Hingað til hafi þau rök þó orðið ofan á í Danmörku foreldrar séu best til þess fallnir að ákveða þetta alfarið sjálfir.

Mynd: Pexels


„En svo eru aðrir sem hugsa þetta þannig að þetta eigi bara að vera foreldraréttur og að það ætti að hugsa þetta svipað og eftirlaun, fólk er að borga skatta og fær svo til baka úr einhverjum sjóði þegar það tekur fæðingarorlof og þetta eigi bara að vera einstaklingsréttur. Maður heyrir báðar hliðar,“ segir hún um umræðuna í Danmörku um þessi mál.

Sex eða sjö mánuðir ekki stutt mæðraorlof í alþjóðlegu samhengi

Ef það sé hins vegar ætlunin að fæðingarorlofið sé tæki til þess að jafna kjör kynjanna telur Herdís að það verði að gera þetta með svipuðum hætti og lagt sé til í frumvarpsdrögunum. „Ég sé þetta bara sem mjög jákvæða leið, hvernig er verið að gera þetta heima,“ segir Herdís.

Hún segir að sex til sjö mánaða orlof sé ekki stutt mæðraorlof í alþjóðlegu samhengi, þó að við Íslendingar miðum okkur oftast við Norðurlöndin þar sem fæðingarorlofið er almennt mjög langt. Hún telur jafnari skiptingu orlofs til þess fallna að hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðsútkomur, enda hafi það neikvæð áhrif þegar einn einstaklingur sé farinn að taka jafnvel heilt ár í fæðingarorlof.

„Það er ein nýleg rannsókn mjög áhugaverð sem er að bera saman hvað gerist þegar gagnkynhneigð pör eignast börn og hvað gerist þegar samkynhneigð pör eignast börn. Þá sjáum við að þegar samkynhneigð pör eignast börn er mun jafnari skipting og við sjáum eiginlega engin langtímaáhrif á laun. Þetta virðist vera betra til lengri tíma, fyrir pör, að jafna þetta út svo það sé hvorugur aðili að upplifa langtímaáhrif á laun og aðrar vinnumarkaðsútkomur,“ segir Herdís.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín mun ræða málefni Ísraels og Palestínu við Blinken og Lavrov í vikunni
Málefni Ísraels og Palestínu voru rædd á þingi í dag. Þingmenn Pírata og Viðreisnar kölluðu eftir því að stjórnvöld tækju af skarið og fordæmdu aðgerðir Ísraela í stað þess að bíða eftir öðrum þjóðum. Forsætisráðherra mun tala fyrir friðsamlegri lausn.
Kjarninn 17. maí 2021
Fjölskylda á flótta hefst við úti á götu í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Útlendingastofnun setur hælisleitendum afarkosti: Covid-próf eða missa framfærslu
Útlendingastofnun er farin að setja fólki sem synjað er um vernd þá afarkosti að gangast undir COVID-próf ellegar missa framfærslu og jafnvel húsnæði. Í morgun var sýrlenskum hælisleitanda gert að pakka saman. „Hvar á hann að sofa í nótt?“
Kjarninn 17. maí 2021
Eurovision-hópurinn fékk undanþágu og fór fram fyrir í bólusetningu
RÚV fór fram á það við sóttvarnaryfirvöld að hópurinn sem opinbera fjölmiðlafyrirtækið sendi til Hollands til að taka þátt í, og fjalla um, Eurovision, myndi fá bólusetningu áður en þau færu. Við því var orðið.
Kjarninn 17. maí 2021
ÁTVR undirbýr nú lögbannsbeiðni á starfsemi vefverslana með áfengi.
ÁTVR ætlar að fara fram á lögbann á vefverslanir og undirbýr lögreglukæru
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá dómstólum hvort innlendar vefverslanir sem selja áfengi milliliðalaust til neytenda séu að starfa löglega, eins og rekstraraðilar þeirra vilja meina.
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Þór Þorvaldsson er framkvæmdastjóri Kaldalóns.
Kaldalón ætlar að skrá sig á aðallista Kauphallar Íslands árið 2022
Kaldalón hefur selt fasteignaþróunarverkefni í Vogabyggð og keypt tekjuberandi eignir í staðinn. Arion banki ætlar að sölutryggja fimm milljarða króna í nýtt hlutafé í tengslum við skráningu Kaldalóns á markað.
Kjarninn 17. maí 2021
Tækifæri í rafmyntaiðnaði til staðar meðan rafmyntir halda velli að mati ráðherra
Líklega mun hið opinbera nýta sér bálkakeðjutækni þegar fram líða stundir samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um rafmyntir. Ekki er þó enn útlit fyrir að rafmyntir taki við af hefðbundinni greiðslumiðlun í bráð.
Kjarninn 17. maí 2021
Viðar Hjartarson
Glæpur og refsing – Hugleiðingar vegna nýfallins dóms
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Atli Gunnarsson
Er nýsköpun ekki lengur töff?
Kjarninn 17. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent