„Fólk er í pólitík til að hafa áhrif. Vald er mikilvægt í þeim þeim efnum en hægt er að hafa áhrif án þess að sitja á valdastóli. En þá þurfa menn að hafa einhverja pólitíska hugmyndafræði og sýn aðra en þá að aðrir séu óheiðarlegir, spilltir og ómögulegir í alla staði. Slík sýndarmennska dugar oftast skammt í pólitík og er ávísun á pirring og þreytu.“
Þetta skrifaði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook í gær. Tilefnið var ákvörðun tveggja þingmanna Pírata, Smára McCarthy og Helga Hrafns Gunnarssonar, að ætla ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum. Ofangreindur texti átti, að sögn Brynjars, að vera ábending til þingmannanna tveggja um ástæður þess að fólk tæki beinan þátt í stjórnmálum.
Til viðbótar við það komi svo áhyggjur Brynjars af kostnaði við að sinna eftirliti með framkvæmdavaldinu með fyrirspurnum, en Brynjar hefur lagt fram fyrirspurnir um hvað það kosti stjórnsýsluna að svara fyrirspurnum þingmanna. Sá þingmaður sem setur fram flestar fyrirspurnir er Björn Leví. „Til þess að svara spurningunni fyrir þig, þá ertu í pólitík til þess að gera ekki neitt. Til þess að sem minnst breytist. Þú nærð þeim árangri með því að vera latur og gera sem minnst. Það sem er ánægjulegt er að nú er það mjög aðgengilegt að sjá hvað það kostar skattgreiðendur að hafa þingmann sem gerir ekki neitt. Ef þú hefur áhyggjur af kostnaði, þá ættir þú frekar að hafa áhyggjur af því en kostnaði af því að vinna eftirlitsvinnuna.“
Að gleypa ælu
Brynjar sagði á móti að Björn Leví hefði litla innsýn í pólitík þrátt fyrir umtalsverða þingsetu. „Ég er hluti af meirihluta og ríkisstjórn. Þar eru lagðar línur um verkefnin framundan og hvað ráðherrar okkar eigi að leggja áherslu á. Ég er ekki á einkaflippi heldur er ég hluti af liði. Aðalstarf mitt er löggjafarstarf og hafa áhrif í þeim efnum. Ég fór ekki á þing til að vera eftirlitsmaður, það er algert aukastarf. Hvað þá að ég telji eftirlit felast í því að íþyngja stjórnkerfinu með tilgangslausum fyrirspurnum. Ég er ekki maður breytinga breytinganna vegna og tel að samfélagið eigi að þróast hægt og þétt til betri vegar. Það er eðli frjálsra samfélaga þegar alvörustjórnmálamenn eru í brúnni. Svo eru til stjórnamálmenn sem halda að þeir eigi að hanna nýtt samfélag. Þeir eru oft miklir popúlistar og sameiginlegt er með þeim öllum að að þeir nota frasann um að aðrir eru óheiðarlegir og spilltir. Þeir hafa stundum komist til valda en alltaf hefur það endað með hörmungum. Svo er það afskaplega billeg vörn í umræðunni að saka andstæðinginn um leti, spillingu, jafnvel þjófnaði og þaðan af verra. Þið hljótið að geta gert betur en það, sérstaklega þau ykkar sem sjást ekki vikum og jafnvel mánuðum saman á þinginu.“
Björn Leví brást við og spurði Brynjar hvort hann væri að gleypa æluna í þessu aðalstarfi sínu, og vísar þar í orð Brynjars frá árinu 2017, þegar hann sagðist hafa „kyngt ælunni“og samþykkt lög um jafnlaunavottun „í þágu mikilvægra hagsmuna“, en Sjálfstæðisflokkur sat þá í skammvinnri stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð, sem börðust sérstaklega fyrir málinu.
Björn Leví spurði enn fremur hvað Brynjar hafi verið að gera sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en hann gegndi því starfi um tíma árið 2017 og hefur setið í nefndinni árum saman. „Finnst þér það fjármunum vel varið að hafa fulltrúa þar sem sinnir ekki hlutverki nefndarinnar heldur er bara í einhverju „liði"? Finnst þér liðið mikilvægara en hlutverk þings og eftirlitsnefndar?“
Meint leti af yfirlögðu ráði
Björn Leví sagðist hafa ágætis innsýn í pólitík og að hann skildi vel hvernig það væri val að sinna liðinu umfram vinnunni. „Það er til orð yfir það val og það orð er spilling. Að leyfa valdafólki að komast upp með misnotkun á valdi þegar það er þitt starf sem eftirlitsaðila að upplýsa um slíkt. Þessi pistill þinn er sorglegur vitnisburður um hvernig þú velur að stunda pólitík. Að sinna liðinu í staðinn fyrir að sinna verkefnum þingsins. Fyrir vikið verður yfirgangur framkvæmdavaldsins meiri og þingið breytist í stimpilstofnun yfirgangs og löggjafar. Það er ekki þingræði eins og þú hefur talað um. Það er ráðherraræði og þú ert þar peð sem þarft að gleypa æluna.“
Hann sagðist nota orðið leti yfir störf Brynjars vegna þess að skjalfestur afrakstur af vinnu hans á þingi væri afskaplega lítill á allt of mörgum árum. Það væri ásökun byggð á gögnum en ekki út í loftið. „Ég veit að það er sárt þegar bent er á spillingu liðsfélaga. Meðvirknin er samt verri. Hún leyfir spillingunni að halda áfram. Þú ert meðvirknin af því að með því að sinna ekki vinnunni þinni heldur bara „spila með liðinu". Sama hvað gerist. Gleypir bara ælu og spilar með. Ég veit að þú ert ágætlega gáfaður. Það þýðir að þú velur að sinna vinnunni þinni á þennan hátt af yfirlögðu ráði. Satt best að segja finnst mér það verra.“
Las í fréttum að vinir mínir, Helgi Hrafn og Smári, væru svo þjakaðir af pólitísku vafstri, að þeir ætluðu að hætta á...
Posted by Brynjar Níelsson on Tuesday, September 29, 2020