Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Controlant hefur lokið tveggja milljarða króna hlutafjárútboði, þar sem meðal annars Sjóvá og VÍS voru á meðal fjárfesta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu sem send var á fjölmiðla í dag.
Samkvæmt tilkynningunni hefur Controlant þróað hugbúnaðarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn. Fyrirtækið segjast munu verða í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19, sem viðskiptavinir þess stefna að því að dreifa í lok árs og á fyrri hluta næsta árs. Í tilkynningunni segir að félagið hafi þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi í geymslu.
Controlant var að mestu leyti í eigu íslenska einkafjárfestins Frumtak Ventures fyrir hlutafjárútboðið, en sjóðir á vegum Frumtaks áttu 45,4 prósent í því við síðustu áramót. Aðrir eigendurfélagsins voru Líra ehf, Stormtré ehf og TT Investments ehf. Frumtak fjárfesti fyrst í fyrirtækinu árið 2011 og er framkvæmdastjóri þess Gísli Herjólfsson.
Á heimasíðu fyrirtækisins segir að Controlant hafi þróað vöktunarlausnir sem koma í veg fyrir skemmdir á lyfjum og matvælum í allri virðiskeðjunnni. Yfir 100 manns starfa fyrir fyrirtækið og fer starfsemi þess fram í yfir 100 löndum.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að starfsemi þessi fari fram í yfir 200 löndum. Hið rétta er að löndin eru yfir 100.