Kaupfélag Skagfirðinga hagnaðist um 4,8 milljarða króna á árinu 2019. Það er mjög svipað og félagið hagnaðist um árið áður þegar hagnaðurinn var 5,1 milljarðar króna. Hagnaðurinn nemur því um tíu milljörðum króna á tveimur árum.
Sá munur er þó á að í fyrra var rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBITDA) 4,8 milljarðar króna eða 1,8 milljarði krónum meiri en árið áður. Árið 2018 var nefnilega 3,3 milljarða króna hagnaður af eignarhlutum í félögum en hann var 1,9 milljarðar króna á síðasta ári.
Þetta kemur fram í ársreikningi Kaupfélags Skagfirðinga sem birtur var nýverið.
Metafkoma á síðustu árum
Kaupfélag Skagfirðinga, samvinnufélag með um 1.600 félagsmenn, er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri og var afkoma félagsins á árinu 2018 sú besta í rúmlega 130 ára sögu félagsins. Afkoman í fyrra var, líkt og áður sagði, litlu síðri.
Uppbygging kaupfélagsins hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, en í lok árs í fyrra var eigið fé félagsins 40 milljarðar króna.
Á meðal viðskipta félagsins sem vöktu verulega athygli á árinu 2019 voru kaup dótturfélagsins FISK Seafood á hlut í Brimi þann 18. ágúst. Strax í kjölfar þeirra viðskipta bætti FISK Seafood við sig um tvö prósent hlutafjár til viðbótar og eignaðist þannig alls 10,18 prósent hlut fyrir ríflega 6,6 milljarða króna. Þann 8. september seldi FISK Seafood Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem nátengt er eignarhaldi Brims, þessa sömu hluti í félaginu fyrir tæplega átta milljarða króna. Hagnaðurinn var um 1,4 milljarðar króna á örfáum vikum.
Risi í sjávarútvegi og á meðal stærstu eigenda Morgunblaðsins
FISK Seafood, sem heldur á 5,5 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með 4,5 prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja ótengdu aðila rétt yfir ellefu prósent.
Kaupfélagið hefur tekið þátt á skráðum hlutabréfamarkaði, meðal annars með því að eiga um tíma hlut í bæði Högum og Brim. Þá á Kaupfélag Skagfirðinga 19,45 prósent hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Í viðtali við Morgunblaðið í apríl í fyrra var Þórólfur spurður um það hvað varð til þess Kaupfélagið ákvað að fjárfesta í fjölmiðlarekstri. „Við lítum þannig á að það sé mikilvægt að til staðar séu vandaðir fjölmiðlar sem ekki eru ríkisreknir. Ríkið er fyrirferðarmikið á þessum markaði sem er ekki hollt til lengdar, og í raun mjög umhugsunarvert, enda þörfin ekki eins brýn og áður var. Ríkið rak einu sinni dreifikerfi á kartöflum, en er hætt því sem dæmi. Þessi mikli rekstur ríkisins á fjölmiðlum býður upp á ákveðna hættu. Að fjölmiðillinn verði ríki í ríkiskerfinu og leiði skoðanamyndun. Við þekkjum það í löndum þar sem ekki er virkt lýðræði, að þar eru ríkisfjölmiðlar mjög fyrirferðarmiklir.“
Kaupfélag Skagfirðinga á líka félög á borð við Esju Gæðafæði og Vogabær, auk þess sem að Kaupfélagið er umsvifamikið í landbúnaði. Þorri starfsemi þess fer fram á Sauðárkróki.