Frá og með fyrsta október og til mánaðarloka mun Seðlabanki Íslands selja viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði þrjár milljónir evra hvern viðskiptadag. Samtals mun bankinn selja 66 milljónir evra, en það jafngildir 10,7 milljörðum íslenskra króna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Seðlabankinn sendi frá sér fyrr í dag. Samkvæmt tilkynningunni munu viðskiptin fara fram fljótlega eftir opnun markaðarins og ekki síðar en kl. 10 um morguninn.
Gjaldeyrissalan er í samræmi við yfirlýsingu bankans fyrr í mánuðinum um að hann muni hefja reglubundna sölu á innlendum gjaldeyrismarkaði frá og með 14. september. Samkvæmt bankanum er markmiðið með þeirri sölu að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun.
Í lok ágúst nam gjaldeyrisforði Seðlabankans 973 milljörðum króna. í byrjun mánaðarins tilkynnti bankinn að hann væri tilbúinn að selja um 4 prósent af gjaldeyrisforðanum það sem eftir lifir ársins, en það jafngildir tæpum 39 milljörðum króna
Frá 14. september hefur gjaldeyrissala Seðlabankans numið 39 milljónum evra, sem jafngildir 3 milljóna evra sölu hvern viðskiptadag. Gangi áætlanir Seðlabankans eftir um gjaldeyrissölu í október mun bankinn hafa selt 17 milljarða króna við þarnæstu mánaðarmót.
Hagfræðingur Arion banka skrifaði um ákvörðun Seðlabankans um reglubundna sölu á gjaldeyrismarkaði í aðsendri grein á Kjarnanum fyrr í mánuðinum, en þar benti hann á að salan gæti leitt til betri verðmyndunar með því að draga úr skammtímasveiflum. Enn fremur bætti hann við að krónan væri töluvert undir jafnvægisraungengi sínu þessa stundina.