Horfur eru á því að landsframleiðsla dragist saman um 7,6 prósent í ár, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, sem birt var í dag. Þar er gert ráð fyrir því að hagkerfið taki aftur við sér á næsta ári og að þá verði hagvöxtur 3,9 prósent.
Ástæða þessa blasir við flestum, kórónuveirufaraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á íslenska hagkerfið. Áhrifin eru mest á ferðaþjónustu, sem hefur nánast lamast, og atvinnuleysi hefur aukist hratt. Vinnumálastofnun spáir því að það verði komið í 10,2 prósent í lok október og almennt atvinnuleysi stefnir í að verða jafn mikið og það var í kjölfar bankahrunsins.
Í þjóðhagsspánni segir að útlit sé fyrir að einkaneysla muni dragast saman um fimm prósent í ár og að þjóðarútgjöld muni dragast saman um 3,6 prósent. Árið 2021 sé þó gert ráð fyrir að einkaneysla taki við sér á ný og aukist um 4,2 prósent, 3,3 prósent árið 2022 en aukist að meðaltali um 2,5 prósent eftir það.
Samkvæmt spánni eykst samneysla um 2,8 prósent í ár og í kringum 1,8 prósent út spátímann. „Fjárfesting dregst saman um 8,9 prósent í ár þrátt fyrir umtalsverðan vöxt opinberrar fjárfestingar. Á næsta ári er reiknað með 5,5 prósent vexti fjárfestingar, einkum vegna bata í atvinnuvegafjárfestingu. Spáð er hóflegum vexti fjárfestingar á næstu árum eftir það. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður neikvætt um rúm 4 prósent en reiknað er með að útflutningur dragist saman um 30 prósent í ár. Á næsta ári er gert ráð fyrir um 17 prósent útflutningsvexti samhliða bata í ferðaþjónustu. Þrátt fyrir mikinn samdrátt útflutnings hefur innflutningur einnig minnkað verulega og því útlit fyrir að viðskiptaafgangur verði 1,8 prósent af vergri landsframleiðslu í ár og að hann haldist jákvæður á spátímanum.“
Halli á ríkissjóði 100 milljarðar á fyrri hluta árs
Í spánni er einnig farið yfir áhrif kórónuveirufaraldursins á afkomu hins opinbera, sem hefur þurft að stofna til nýrra útgjalda til að mæta áhrifum hans á sama tíma og tekjur hafa dregist saman.
Fjölmörg fyrirtæki hafa einnig orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins og áframhaldandi óvissa hefur raskað fjárfestingaráformum. Í spánni segir að í ár séu horfur á að atvinnuvegafjárfesting dragist saman um 12,6 prósent og nær samdrátturinn til flestra þátta að frátöldum skipum og flugvélum, en án þeirra liða er samdrátturinn tæplega 18 prósent. Árið 2021 er reiknað með að fjárfesting atvinnuvega aukist um 8,2 prósent frá fyrra ári og nái sér að hluta til á strik.“
Íbúðafjárfesting hefur vaxið mikið síðastliðin fjögur ár og náði vöxturinn hámarki í fyrra þegar hún jókst um rúmlega 31 prósent. Í ár hefur orðið viðsnúningur og mældist rúmlega 14 prósent samdráttur á fyrra hluta ársins. Útlit er fyrir að samdráttur á seinni hluta ársins verði svipaður og að hann teygi sig yfir á næsta ár.
30 prósent samdráttur í útflutningi
Samkvæmt spánni er talið að útflutningur dragist saman um 30 prósent í ár sem megi að stærstum hluta rekja til hruns í komum ferðamanna og áhrifanna sem það hefur á þjónustuútflutning, en einnig til samdráttar í útflutningi sjávarafurða, áls og annarra vara. „Á næsta ári er búist við um 17 prósent bata vegna fjölgunar ferðamanna, aukningu í útflutningi sjávarafurða og bata í öðrum vöruútflutningi. Gert er ráð fyrir töluverðum vexti útflutnings út spátímann þar sem ferðaþjónustan nær fyrri styrk.“
Verðbólguhorfur hafa versnað vegna veikingu á gengi krónunnar frá því í sumar. Nú telur Hagstofan að útlit sé fyrir að verðbólga verði um 2,8 prósent að meðaltali á árinu. Árið 2021 er svo gert ráð fyrir að verðbólga verði 2,7 prósent en eftir það dragi úr verðbólgu og að hún nálgist 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.