Ríkisstjórnin vill veita sveitarfélögum fjárhagslega viðspyrnu sem nemur 4,8 milljörðum króna, á sama tíma og sveitarfélögin hafa sammælst um afkomumarkmið sem er í samræmi við fjármálastefnu hins opinbera fyrir næstu fimm árin. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins sem gefin var út fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni ætla sveitarfélögin og ríkið sér að stöðva hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu innan fimm ára, en búist er við að grípa þurfi til afkomubætandi ráðstafana til þess.
Samkomulagið inniheldur fjölda verkefna sem gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög vinni saman að á næstu árum. Þeirra á meðal er endurskoðun á tekjustofnun sveitarfélaga og regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, auk þess sem útgjöld á ýmissi þjónustu við aldraða verði endurmetin.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, ásamt Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirrituðu í morgun viljayfirlýsingu um að veita sveitarfélögum alls 4.805 milljóna króna viðspyrnu. Með yfirlýsingunni lýstu ráðherrarnir því yfir að unnið yrði að því að afla þessara fjárheimilda á Alþingi.