Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi og mælist með 23,9 prósent stuðning samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í dag. Vinstri græn bæta einnig lítillega við sig á milli kannana Gallup og eru nú með 13,7 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn dalar hins vegar á milli mánaða og mælist nú með 6,7 prósent fylgi, sem myndi gera hann að minnsta flokknum á Alþingi ef kosið yrði í dag. Raunar er þetta fylgi það lægsta sem Gallup hefur mælt hjá Framsóknarflokknum, að einni könnun undanskildri. Sú könnun var gerð í september 2018 og sýndi flokkinn með 6,6 prósent fylgi.
Allir stjórnarflokkarnir þrír eru að mælast undir kjörfylgi sem stendur en sameiginlegt fylgi þeirra er 44,3 prósent. Það er töluvert hærra en það hefur verið að mælast í nýjustu könnunum MMR og Zenter.
Samfylkingin yrði næst stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag og nýtur stuðnings 14,9 prósent kjósenda. Píratar myndu fá 13,2 prósent atkvæða eins og sakir standa núna og Viðreisn mælist með 10,4 prósent fylgi.
Tæpt ár er til næstu þingkosninga. Þær fara fram í september 2021.
Tveir flokkar sem mælast næðu líklega ekki inn
Miðflokkurinn dalar lítillega á milli mánaða og nýtur nú stuðnings 9,4 prósent kjósenda. Hann er því aðeins undir þeim 10,9 prósentum sem hann fékk í kosningunum 2017, og var þá það mesta sem nýr flokkur hafði nokkru sinni fengið í sínum fyrstu þingkosningum.
Sósíalistaflokkur Íslands myndi fá 3,9 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag og Flokkur fólksins 3,7 prósent. Hvorugur flokkurinn yrði líklegur til að ná mann á þing með þannig fylgi.
Allar tölur hér að ofan byggja á svörum þeirra sem tóku afstöðu í könnun Gallup.
Nær tólf prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu eða vildu ekki gefa hana upp og liðlega níu prósent sögðu að þeir myndu skila auðu eða ekki kjósa.
Slétt 55 prósent þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina. Það er einu prósentustigi minni stuðningur en hún naut í lok ágúst.
Könnunin var netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 30. september 2020. Heildarúrtaksstærð var 9.673 og þátttökuhlutfall var 52,9 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,3 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.