„Hún var taktlaus og mistök, svona eftir á að hyggja. Myndmálið var þannig og tímasetningin rétt eftir að tilkynnt var um afdrifaríkar ákvarðanir um komur til landsins.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Morgunblaðið um myndir af vinkonuhittingi hennar um miðjan ágúst, þar sem þær voru myndaðar nokkrum sinnum saman í einum hnappi.
Myndin sætti mikilli gagnrýni í ljósi tveggja metra reglunnar svokölluðu sem var ekki viðhöfð við þær myndatökur.
Ríkisstjórnin, sem Þórdís Kolbrún situr í, hafði nokkrum vikum áður hert reglur vegna þess að önnur bylgja kórónuveirusmita var að gera vart við sig. Á blaðamannafundi í lok júlí sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: „„Þar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði tveggja metra reglan viðhöfð á milli einstaklinga. Það er að segja að hún verði ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin. Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga þá er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.“
Takmarkarnir hertar daginn áður
Föstudaginn 15. ágúst ákváðu stjórnvöld að herða verulega takmarkanir á landamærum Íslands, sem í reynd lokuðu landinu að mestu fyrir komu ferðamanna. Við það tækifæri skrifaði Þórdís Kolbrún í stöðuuppfærslu á Facebook að áfram væru „persónubundnar sóttvarnir langöflugasta tækið til að berja þessa veiru niður og hertari aðgerðir á landamærum koma aldrei í staðinn fyrir það. Við búum í góðu samfélagi. Sterku samfélagi. Og við erum heppin með það teymi sem ráðleggur okkur í gegnum þann þátt þessa risa stóra verkefnis.“
Vinkonuhittingurinn sem röð mynda voru teknar af átti sér svo stað daginn eftir, laugardaginn 16. ágúst.
Stór hluti þess að vera manneskja að gera mistök
Þórdís Kolbrún segir í Morgunblaðinu í dag að hún hafi verið ráðherra í fjögur ár án þess að lenda í uppákomum sem þessum og að hún hafi kannski mátt búast við að það gerðist fyrr eða síðar. „En ég get svo sem ekki kvartað, þetta kom við mig en við þekkjum alveg dæmi um mun persónulegri gagnrýni. Mér hefur þótt það mín gæfa í stjórnmálum að ég kom tiltölulega hratt inn í þau, þannig að ég hef getað verið ég sjálf, án einhvers pólitísks farangurs úr fortíð. Ég finn að fólki finnst það þægilegt að ég sé ekki að setja mig í eitthvert hlutverk stjórnmálamannsins, en ég skil líka betur núna að sumir gera það. Það er bara ekki mín leið. Ég ætla að vera ég sjálf. En það er snúið að kalla eftir manneskjulegum manneskjum í pólitík, en leyfa þeim svo ekki að vera manneskjur. Gleymum því ekki að það er stór hluti þess að vera manneskja, að gera mistök, vera taktlaus, hafa ekki alltaf hugsað hlutina til enda.“
Hún segist ekki gera kvartað yfir sinni stöðu eða tækifærum sem hún hafi fengið, en stundum finnist henni ágengnin keyra úr hófi. „Og margir stjórnmálamenn sem þurfa að þola það margfalt á við mig.“