Þróuð ríki ættu að stórauka opinberar fjárfestingar til að komast fljótar upp úr þessari kreppu, samkvæmt nýjustu útgáfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um ríkisfjármál. Í útgáfunni stendur að hagkvæmt sé að taka lán fyrir slíkri fjárfestingu þessa stundina út af lágum vöxtum og uppsafnaðri þörf. Enn fremur gætu þær haft jákvæð áhrif á fjárfestingar í einkageiranum.
Í viðtali við blaðamann Wall Street Journal segir Paolo Mauro, aðstoðarforstjóri deildar AGS um opinber fjármál, að opinber fjárfesting sé mjög áhrifarík leið til að auka efnahagsumsvif og skapa störf hratt og örugglega. Með fjárfestingum væri einnig hægt að greiða fyrir langtímabreytingum á heimshagkerfinu eftir faraldurinn og minnist Mauro á mikilvægi grænna og stafrænnar fjárfestingar í því tilliti.
Ofgnótt af sparnaði
Samkvæmt AGS benda sögulegir lágir vextir á Vesturlöndum til þess að ofgnótt sé af sparnaði sem nýta mætti í fjárfestingar hins opinbera. Því er fjármögnunarkostnaður hins opinbera lægri en áður, sem þýðir að hagkvæmara sé að taka lán heldur en áður.
Styrkir einkafjárfestingu
Einnig bendir Mauro á að núverandi óvissa í efnahagsmálum leiði til þess að einkafjárfestar haldi jafnan að sér höndum, en að AGS sýni í skýrslu sinni að opinberar fjárfestingar gætu spornað við þessari þróun.
Í skýrslunni voru áhrif opinberra fjárfestinga á fjárfestingu í einkageiranum skoðuð hjá 400 þúsund fyrirtækjum í 49 löndum. Samkvæmt rannsókninni hefur aukning í opinberri fjárfestingu jafnan jákvæð áhrif á einkageirann, sérstaklega ef skuldsetning meðal fyrirtækja var hófleg. Samkvæmt Mauro myndi opinber fjárfesting því skila meiri árangri í hagkerfinu ef skuldsettum fyrirtækjum er auðveldað að fara í gjaldþrot.
Viðhald auk grænnar og stafrænnar fjárfestingar
Skýrslan bendir á að mörg rök hnígi að því að skynsamlegt sé að ráðast í viðhald á innviðum fyrst, þar sem slík fjárfesting sé jafnan mannaflsfrek og myndi því skapa mörg störf. Einnig minnist Mauro á að viðhaldsþörf hafi safnast upp í innviðum víðs vegar á Vesturlöndum og nefnir þar sem dæmi að skipta þurfi út fjórðungi allra vatnslagna í Frakklandi.
Einnig er hvatt til grænnar fjárfestingar, en samkvæmt skýrslu AGS hafa fleiri störf skapast af henni heldur en venjulegum fjárfestingum, að minnsta kosti til skamms tíma. Til langs tíma geti slík fjárfesting, auk fjárfestingar í stafrænum innviðum gert hagkerfum heimsins meira kleift að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Viðbrögð AGS við þessari kreppu eru önnur en í kjölfar síðustu fjármálakreppu, þegar sjóðurinn hvatti til aðhaldi í ríkisfjármálum og lægra skuldahlutfalli hins opinbera. Sjóðurinn virðist einnig hafa verið á öðru máli í byrjun ársins, en hann varaði við of háu skuldahlutfalli á Vesturlöndum í vinnupappír sem birtist í janúar á þessu ári, tveimur mánuðum fyrir efnahagsáfallið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.